Innlent

„Það var ekkert eftir nema dauðinn sem kom á ógnar­hraða“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anton Sveinn stingur sér til sunds. Nú dýfir hann sér í stjórnmálin.
Anton Sveinn stingur sér til sunds. Nú dýfir hann sér í stjórnmálin. Mike Lewis

Anton Sveinn McKee segir dauða föður síns hafa gjörbreytt lífi sínu og sýn sinni á tilveruna. Anton, sem er gestur í nýjasta þætti podcasts Sölva Tryggvasonar, segist hafa þurft að kafa djúpt til að finna aftur vonarneistann, en hann er sannfærður um að það sé undir okkur sjálfum komið að finna fegurðina í tilverunnni, sama hvað bjátar á.

„Ferlið í kringum pabba kenndi mér ótrúlega mikið. Ég fór í gegnum gríðarlega dimman dal þar sem mikið af minni framtíðarsýn fór bara allt í einu. Ég hafði verið mikið erlendis út af sundinu og missti af tíma með pabba þar og hafði verið með plön um að breyta því þegar ég kæmi heim. Maður býr alltaf til einhver framtíðarplön sem að maður ætlast til að raungerist, en svo kemur bara þruma sem breytir öllu á einni sekúndu. Hann greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn MND og var svo farinn á innan við einu ári. Þetta var eitt ágengasta tilvik sem læknar hérlendis hafa séð. Hann ákvað að taka eigið líf og ég er stoltur af honum fyrir að hafa gert það. Það var augljóst að það var ekkert eftir nema dauðinn sem kom á ógnarhrara og hann vildi ekki að sjúkdómurinn myndi sigra,“ segir Anton, sem segir þetta ferli hafa gjörbreytt sér sem manneskju.

Anton Sveinn gekk nýverið til liðs við ungliðahreyfingu Miðflokksins og er talið fullvíst að hann verði í einu af efstu sætum flokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum.

„Fyrir þetta var allt mitt viðhorf til lífsins að lífið væri gott. En eftir þetta hef ég horft á það þannig að heimurinn sé harður og grimmur, en það sé okkar að gera hann betri og fallegri. Við sem manneskjur og samfélag getum gert hlutina góða. Við getum ekki ætlast til að allt sé gott, heldur þurfum við að vinna í því og gera okkar besta alla daga til að búa til tilgang og gera hlutina fallegri. Það getur verið mjög erfitt og ósanngjarnt, en þegar hlutir gerast sem við getum ekki breytt verðum við að finna æðruleysi og gera það besta úr þeim. Ég þurfti að læra að finna þakklæti í smáum og hversdagslegum hlutum. Hvort sem það er að fá að drekka góðan kaffibolla, fá að labba úti með hundinn sinn eða annað í þeim dúr. Með því að finna fegurðina í litlu hlutunum getum við breytt tilverunni.“

Það að ná þeim árangri sem Anton hefur náð og að fara á ferna Ólympíuleika gerist ekki án mikillar vinnu og aga. Hann segist í raun hafa verið haldinn fullkomnunaráráttu lengi og að það hafi tekið hann tíma að finna meðalveginn í því að vera agaður, án þess að fara í sjálfsniðurrif og búa til fangelsi fyrir sjálfan sig.

Lengi að læra að skilja sjálfan

„Fullkomnunarárátta hefur verið rauður þráður í gegnum allt líf mitt og nú togast það á einhvern hátt út í önnur verkefni. Ég vil hafa allt á hreinu, vita hvað ég er að gera og leggja mig allan fram. Þetta er gjöf, en getur á sama tíma haldið aftur af manni ef maður nær ekki stjórn á því. Ef þú ert með fullkomnunaráráttu án þess að átta þig á því ertu endalaust að elta eitthvað sem þú getur aldrei náð. Það er auðvitað ekki hægt að vera fullkominn og þú vilt alltaf ná lengra sem manneskja. Það tók mig tíma að átta mig á þessu, læra inn á sjálfan mig og ná stjórn á þessu. Að hafa hafa reglur og aga og finna frelsið sem því fylgir að ná markmiðum sínum, en sleppa tökum á því að ná 100% árangri alls staðar, af því að það er ekki hægt. Það er auðvitað ekki gott ef maður festist á þeim stað að finnast aldrei neitt nóg og finnast maður sjálfur ekki nóg. Það tók mig tíma að læra inn á mig og skilja þennan hluta af mér,“ segir Anton, sem segir sundferilinn hafa undirbúið sig mjög vel undir næstu kafla í lífinu.

„Ég er kominn með verkfæralager af tækjum og tólum sem munu hjálpa mér í lífinu sem sundið hefur gefið mér. Að takast á við mótlæti og fara í gegnum dimma dali þar sem þú sérð nánast engan vonarneista. Að kunna að hafa sjálfsstjórn og aga og stýra tíma sínum. Að kunna að setja sér markmið og jafnvel mjög háleit markmið og vinna í áttina að þeim. Og svo framvegis. Íþróttir geta kennt manni svo margt um lífið sjálft og eru á margan hátt endurspeglun á því sem fólk fer í gegnum í lífinu.“

Anton hefur nú ákveðið að fara inn á vettvang stjórnmálanna og var á dögunum kjörinn formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins.

Pólitíski ásinn orðinn úreltur

„Þessi pólitíski hægri vinstri ás er á ákveðinn hátt orðinn úreltur. En í grunninn snýst þetta um hvert sé hlutverk ríkisins og hvað það eigi að vera í stóru hlutverki í lífi fólks. Ég trúi því í grunninn að við viljum öll gott samfélag, en okkur greinir á um leiðirnar að því. Ég er einlægur talsmaður þess að valdefla fólk og hjálpa fólki að standa upp. Þess vegna trúi ég ekki á kerfi þar sem fólki er á ákveðinn hátt haldið inni í kerfinu og á endanum er engin leið út úr því. Það að fá tækifæri til sjálfsábyrgðar og að geta orðið betri útgáfa af sjálfum sér er til lengri tíma það besta fyrir okkur. Auðvitað viljum við hafa gott velferðarkerfi og hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á því að halda, en stundum er „tough love“ það besta sem þú getur gefið fólki. Ég vil nýta þann tíma sem ég hef hérna til þess að láta gott af mér leiða og gera það sem ég get til þess að hafa jákvæð áhrif í kringum mig. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að fara í stjórnmál. Þetta virkar kannski mjög neikvætt umhverfi út á við og þeir sem fara í stjórnmál þurfa að þola alls kyns umtal, en ég trúi því að það sé hægt að hafa áhrif til góðs í gegnum stjórnmálin. Ég held að það eigi allir stjórnmálamenn að fylgja eigin sannfæringu og segja satt. Ef að það þýðir að maður fái ausur yfir sig á Facebook eða X, þá verður það bara að vera þannig. Það er hluti af þessu og ég er ekki að búast við því að allir muni elska mig fyrir mínar skoðanir. En ég ákvað að fara í Miðflokkinn af því að ég er orðinn þreyttur á umbúðastjórnmálum og held að það séu margir orðnir þreyttir á því.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Anton og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×