Fótbolti

Telja að Rodri vinni Gull­boltann og Vinícius mæti því ekki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinícius Júnior mun ekki mæta á afhendingu Gullboltans í kvöld ef marka má íþróttamiðilinn The Athletic.
Vinícius Júnior mun ekki mæta á afhendingu Gullboltans í kvöld ef marka má íþróttamiðilinn The Athletic. EPA-EFE/KIKO HUESCA

Talið er að Rodri, miðjumaður Manchester City og Spánar, fái Gullboltann í kvöld en þau verðlaun fær sá knattspyrnumaður sem tímaritið France Football telur hafa verið bestan undanfarið ár.

Það er The Athletic sem greinir frá því að Rodri, sem varð Englandsmeistari með Man City á síðustu leiktíð og síðar meir Evrópumeistari með Spánverjum í sumar, hljóti verðlaunin. 

Fyrir fram var talið að brasilíski framherjinn Vinícius Júnior myndi vinna verðlaunin en hann var allt í öllu þegar Real Madríd varð Spánar- og Evrópumeistari síðasta vor.

The Athletic telur hins vegar að þar sem Rodri sé líklegastur til að hreppa hnossið þá muni Vinícius Jr. halda sig heima í Madríd og sniðganga verðlaunaafhendinguna.

Gullboltinn (Ballon d‘Or) hefur verið veittur frá árinu 1956 í karlaflokki en frá árinu 2018 í kvennaflokki. Talið er að Aitana Bonmatí, miðjumaður Barcelona og Spánar, „verji“ titilinn í kvennaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×