Skoðun

Barnafangelsi Ás­mundar

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Afstaða mótmælir harðlega fyrirhugaðri neyðarvistun fyrir börn á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, sem hefur verið kynnt af Ásmundi Einari Daðasyni, barnamálaráðherra.

Afstaða telur að vistun barna á lögreglustöð gangi gegn 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sbr. lög nr. 19/2013. Einnig 1. mgr. 3. gr. samningsins sem felur í sér sérstakan rétt barna til verndar og þá grundvallarreglu að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stofnanir á vegum hins opinbera, dómstólar eða löggjafinn gera ráðstafanir sem varðar börn. Á grundvelli þess hefur Afstaða ákveðið að beina kvörtun um fyrirætlan barnamálaráðherra til OPCAT-eftirlits umboðsmanns Alþingis.

Neyðarvistun barna á lögreglustöðvum gengur gegn grundvallar mannréttindum barna. Rannsóknir hafa sýnt að vistun barna í lögregluumhverfi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sálræna og félagslega velferð þeirra. Börn eiga rétt á öruggu og stuðningsfullu umhverfi, ekki að vera undir áhrifum þess að vera í fangelsi eða öllu heldur “æfingabúðum” fyrir fangavist.

Að vista börn á lögreglustöðvum er ekki lausn. Þvert á móti, það getur dýpkað vandamálin sem þau þegar glíma við. Við þurfum að þróa úrræði sem stuðla að velferð barna, en ekki setja þau í óöryggi og mannskemmandi aðstæður.

Afstaða kallar eftir því að barnamálaráðherra endurskoði þessa aðgerð og leiti að valkostum sem hafa í för með sér betri lausnir fyrir börn, eins og að fjárfesta í samfélagslegum úrræðum sem veita stuðning og ráðgjöf á jafningagrundvelli og öruggt umhverfi.

Við hvetjum alla aðila til að koma saman í þessari mikilvægu umræðu um velferð barna í okkar samfélagi og sameinast gegn þessum áformum og finna betri lausn. Lausnin þarf samt að koma strax.

Höfundur er formaður Afstöðu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×