Þeim hefur þannig fækkað verulega frá því í upphafi vikunnar sem eru undir eftirliti en þá voru um 40 börn undir eftirliti. Þeim hefur sömuleiðis fækkað um einn sem eru inniliggjandi frá því í fyrradag en fjölgað sem eru á gjörgæslu. Á mánudag voru þrjú á gjörgæslu en nú eru þau fimm.
Guðrún segir eitt nýtt tilfelli veikinda hafa bæst við i gær. Það taki smá tíma fyrir alvarleg veikindi að koma upp en það sé vel fylgst með þeim börnum á spítalanum.
Hún segir starfsmenn ekki hafa sent inn sýni vegna veikinda en það sé viðbúið að það hafi verið einhver afleidd veikindi inni á leikskólanum því starfsfólk vinni svo náið með börnunum. Allir sem hafi veikst hafi einhver tengsl við leikskólann.
Afleidd smit eðlileg
„Það getur það sama gerst á heimilum. Krakkarnir eru með niðurgang og þau eru lítil þannig það þarf að hjálpa þeim. Þannig smitast þetta. Þetta fer líka í þarmana okkar og fer út með saur. Ef lítill krakki fer á klósettið getur þetta borist í einhvern sem er að hjálpa. Eða ef krakkinn er nokkuð sjálfstæður og þvær sér ekki nægilega vel um hendurnar.“
„Það er verið að skoða ýmis matvæli,“ segir Guðrún og að bæði sé verið að skoða hakk og grænmeti sem hafi verið í boði á leikskólanum. Bæði sé verið að skoða matvælin sem voru í boði auk þess sem verkferillinn á leikskólanum sé til skoðunar hjá heilbrigðiseftirlitinu.
„Þetta er þarmabaktería sem er í dýrum, aðallega jórturdýrum, og getur því verið í nauta- og lambakjöti,“ segir Guðrún og að frá þeim geti bakterían borist á kjöt við slátrun eða framleiðslu.
„Það getur sama gerst í landbúnaði þegar það er verið að rækta grænmeti. Erlendis hefur þetta líka verið tengt við eplaræktun og framleiðslu á síder. Þá eru þessi bú kannski með fjölbreytta starfsemi og þetta er mengun sem kemur frá dýrunum. Þess vegna er þetta líka stundum í vatninu.“
Úr hakki eða grænmeti
Hún segir að ef þetta sé á kjötinu þá drepist bakterían við steikingu en ef fólk er að elda hakk þá sé búið að blanda því einhvern veginn saman og ef það er eldað illa þá geti bakterían verið inni í hakkinu.
„Hún er ekki inni í steikinni, heldur á henni, en getur verið inni í hakkinu,“ segir Guðrún
Hvað varðar grænmetið þá geti bakterían verið utan á grænmetinu. Það sé hægt að skola það en fólk auðvitað sé ekki að sótthreinsa grænmeti eða þrífa það með sápu.
„Þetta hefur alveg verið í salati og spírum. Þess vegna segir maður fólki að skera ekki hrátt kjöt og grænmeti á sama skurðbretti eða með sama hníf. Ef það væri á grænmeti þá værir þú að blanda því saman.“
Guðrún segir að sóttvarnalæknir og matvælastofnun muni síðar í dag senda frá sér tilkynningu um stöðu mála. Tilkynningin verður birt á vefnum.