Fótbolti

Láki samdi við strák sem er nú einn heitasti fram­herji Evrópu

Aron Guðmundsson skrifar
Þorlákur Árnason, sem var á dögunum ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV, samdi við Viktor Gyökeres á sínum tíma sem akademíustjóri sænska liðsins Brommapojkarna
Þorlákur Árnason, sem var á dögunum ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV, samdi við Viktor Gyökeres á sínum tíma sem akademíustjóri sænska liðsins Brommapojkarna Vísir/Samsett mynd

Viktor Gyökeres er eftirsóttasti framherji heims um þessar mundir og Þorláki Árnasyni óraði ekki fyrir því á sínum tíma, þegar að hann samdi við kappann í Svíþjóð, að hann myndi ná svona langt á sínum ferli. 

Þessi 26 ára gamli Svíi með ung­versku ræturnar hefur raðað inn mörkum með liði Sporting Lissabon í Portúgal. Hann hóf ferilinn með sænska liðinu Bromma­pojkarna á sínum tíma og þar urðu á vegi hans tveir Ís­lendingar. Magni Fann­berg og Þor­lákur Árna­son. Láki segir það ekki hafa hvarflað að sér á sínum tíma að Gyökeres gæti komist á þann stað sem að hann er á núna.

„Magni Fann­berg var að þjálfa hann í undir nítján ára liði Bromma­pojkarna og á sínum tíma, þegar að ég var akademíu­stjóri félagsins ákveð ég að það yrði samið við hann. Það er nú það eina sem ég get verið þekktur fyrir þó að ég hafi hitt hann, kynnst fjöl­skyldunni hans og allt það. Ég get ekki sagt það (að hann hafi búist við því að Gyökeres kæmist á þetta gæða­stig á sínum ferli). Hann var þó með rosa­lega gott hugar­far og var frábær í ákveðnum hlutum. Það er oft þannig með bestu leik­mennina að þeir eru ógeðs­lega góðir í fáum hlutum. Það er ekkert nauð­syn­legt að vera góður í mörgu. Heldur hafði hann þetta knatt­rak og gat neglt boltanum í fjær skeytin. Það varð til þess að ég ákvað að semja við hann. 

Síðan var hann með rosa­lega gott bak­land. For­eldra frá Ung­verja­landi, ótrú­lega jarðbundin og svo fékk hann, eins og margir sterkir leik­menn, að spila mjög snemma með meistara­flokki. Þannig að hann spilaði í liðinu hjá Magna þegar að hann var með Bromma­pojkarna í Superettunni, næst efstu deild í Svíþjóð. Spilaði fullt af leikjum þar og var síðan að mig minnir seldur til Brig­hton eftir það.“ 

Árin liðu og eftir veru hjá Brig­hton. Sem fól einnig í sér láns­dvalir hjá öðrum liðum á borð við Coventry City þar sem að Svíinn sló í gegn með því að skora fjörutíu og þrjú mörk og gefa sautjan stoðsendingar í yfir eitt hundrað leikjum,  kom kallið frá Sporting Lissabon í Portúgal þar sem að Gyökeres hefur skorað 62 mörk og alls komið að 81 marki í 64 leikjum frá því að hann gekk til liðs við félagið í fyrra. Gyökeres varð portúgalskur meistari með Sporting á síðasta tímabili, varð markahæsti leikmaður efstu deildar og um leið valinn besti leikmaður deildarinnar það tímabilið. 

Frammistaða sem hefur varpað kastljósi stór­liða á borð við Arsenal og Manchester City að Svíanum. Þá hugsa stuðnings­menn Manchester United sér nú gott til glóðarinnar. Því Rúben Amorim, þjálfari Gyökeres hjá Sporting er að fara taka við stjórnar­taumunum á Old Traf­ford og spurning hvort að Svíinn fylgi með.

Hvað sem gerist er það ekki spurning um hvort, heldur hvenær Gyökeres tekur næsta skref upp á við á sínum ferli að mati Láka sem varði undan­förnu ári tólf í Portúgal sem þjálfari kvenna­lið Dama­i­en­se.

„Nokkrir leik­menn sem ég vann með komu frá Sporting. Það eru eigin­lega allir í Portúgal sem fylgja þremur stærstu liðunum; Sporting, Porto og Ben­fi­ca. Ég hef aðeins kynnst honum (Gyökeres) í gegnum linsuna af því að vera í Portúgal. Hann er náttúru­lega bara stærsta nafnið í fót­boltanum í deildinni þar og fer á endanum í stærra lið.“

10:03 Fréttin var uppfærð með upplýsingum um veru Gyökeres hjá Coventry City




Fleiri fréttir

Sjá meira


×