Fótbolti

Mínútu þögn fyrir alla leiki og Real Madrid gefur milljón evra

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ákvörðun var tekin í höfuðstöðvum spænska knattspyrnusambandsins að fresta öllum leikjum í Valencia.
Ákvörðun var tekin í höfuðstöðvum spænska knattspyrnusambandsins að fresta öllum leikjum í Valencia. Burak Akbulut/Anadolu Agency via Getty Images

Vegna hamfaranna á Spáni verður einnar mínútu þögn viðhöfð í öllum leikjum sem fara fram í spænska fótboltanum um helgina, en öllum leikjum í Valencia héraði hefur verið frestað. Real Madrid hefur heitið milljón evra til aðstoðar.

Hundrað og fjörutíu hið minnsta hafa látið lífið vegna hamfaraflóðanna. Flestir hinna látnu hafa fundist í Valencia héraði, en dauðsföll hafa líka orðið í Kastilíu La mancha og Andalúsíu. Óttast er að tala látinna haldi áfram að hækka en fjölmargra er enn saknað.

Nú þegar hafði þremur leikjum í spænska bikarnum, sem áttu að fara fram í gær og fyrradag, verið frestað.

Ákvörðun var svo tekin af spænska knattspyrnusambandinu að fresta öllum leikjum sem áttu að fara fram í Valencia héraði um helgina. Það eru tveir leikir í úrvalsdeild karla, tveir leikir í úrvalsdeild kvenna og þrír leikir í næstefstu deild karla.

Þar á meðal er leikur Valencia og Real Madrid, sem átti að fara fram á laugardag. 

Eftir að ákvörðun var tekin um að fresta leiknum tilkynnti Real Madrid að félagið myndi leggja eina milljón evra til aðstoðar í gegnum hjálparstarf Rauða Krossins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×