Innlent

Ís­lendingar þurfa ekki vega­bréfsá­ritun til Kína næsta árið

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegfarendur ganga fram hjá Forboðnu borginni í Beijing. Íslendingar geta brátt ferðast þangað án vegabréfaáritunar, að minnsta kosti tímabundið.
Vegfarendur ganga fram hjá Forboðnu borginni í Beijing. Íslendingar geta brátt ferðast þangað án vegabréfaáritunar, að minnsta kosti tímabundið. Vísir/EPA

Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að leyfa Íslendingum að koma til Kína án vegabréfsáritunar út næsta ár. Undanþágan tekur gildi í næstu viku.

Ferðalangar frá Íslandi geta dvalist að hámarki í fimmtán daga í Kína án áritunar til þess að ferðast, stunda viðskipti, heimsækja fjölskyldu eða til þess að ná tengiflugi, að því er kom fram fréttamannafundi kínverska utanríkisráðuneytisins í dag. Kínverska sendiráðið á Íslandi vekur athygli á undanþágunni.

Auk Íslands geta vegabréfshafar frá Slóvakíu, Noregi, Finnlandi, Danmörku, Andorra, Mónakó, Liechtenstein og Suður-Kóreu nú ferðast til Kína án vegabréfsáritunar. Undanþágan er sögð tímabundni í tilraunaskyni. 

Áður höfðu Kínverjar einhliða veitt tuttugu öðrum ríkjum slíkar undanþágur til þess að liðka fyrir ferðalögum til landsins.

Undanþágan tekur gildi föstudaginn 8. nóvember og gildir til 31. desember 2025. Fyrr á þessu ári var Ísland í hópi sextíu ríkja sem fengu undanþágu frá vegabréfsáritun til þess að ferðast til kínversku eyjarinnar Hainan í að hámarki þrjátíu daga.

Kínverjar þurfa eftir sem áður vegabréfsáritun til þess að ferðast til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×