Skoðun

Ó­lög­leg meðvirkni lækna

Teitur Ari Theodórsson skrifar

Læknar grínast oft með að þeir séu ein meðvirkasta stétt landsins. Blindaðir ef umhyggju gagnvart sjúklingum eru þeir tilbúnir að láta ýmislegt yfir sig ganga. Þeir vinna lengur án kaups, sinna sjúklingum á göngum og hlaupa sífellt undir bagga með kerfi sem virðist ekki alltaf vera með þeim í liði.

Eftir sjö mánaða þóf við kjarasamningsborðið ákváðu læknar að boða til verkfalla í þeirri von að meiri hreyfing kæmist á kjaraviðræðurnar. Yfirgnæfandi meirihluti lækna samþykkti verkfallsboðun, eða tæp 93% þar sem kosningaþátttaka var rúmlega 83%.

Það er kannski merki um umrædda meðvirkni að boðaðar verkfallsaðgerðir voru einkar hóflegar. Samkvæmt útgefnu verkfallsplani áttu mismunandi starfsstöðvar lækna, til að byrja með, að leggja niður störf, einn dag í senn aðra vikuna en enga daga hina vikuna. Þannig áttu mismunandi svið Landspítalans að leggja niður störf á mismunandi dögum. Það þýddi til dæmis að ég, sem starfa sem læknir á lyflækningasviði Landspítalans, átti að leggja niður störf í einn dag, aðra hvora viku fram að jólum. Hjá öðrum starfsstéttum ríkisins kallast slíkt fyrirkomulag stytting vinnuvikunnar, sem enn er ósamið um við lækna.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá viðbrögð ríkisins við boðuðum verkfallsaðgerðum lækna. Ríkið telur þær ólöglegar. Taka skal fram að Læknafélag Íslands hefur aðeins einu sinni áður farið í verkfall. Þá var fyrirkomulag atkvæðagreiðslu og verkfalls eins og nú. Þá taldi ríkið þær ekki ólöglegar. Núna, 10 árum seinna telur ríkið að greiða hefði átt atkvæði öðruvísi og að það sé ólöglegt að mismunandi svið Landspítalans fari í verkfall á mismunandi tímum. Ríkið vill frekar að allir læknar Landspítala leggi niður störf samtímis, annars sé vinnustöðvunin á Landspítalanum ólögleg.

Læknum er létt að meðvirkni þeirra hafi loks verið talin ólögmæt. Það þarf að endurskipuleggja verkfallsaðgerðir til þess að koma til móts við kröfur ríkisins og tryggja lögmæt verkföll. Við þeim kröfum ríkisins telja læknar sjálfsagt að verða.

Höfundur er formaður Félags almennra lækna (FAL).




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×