Skoðun

Stýrir gervi­greind mál­flutningi stjórn­mála­manna og semur stefnur stjórn­mála­flokkanna?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Í aðdraganda Alþingiskosninga getur verið erfitt fyrir kjósendur að leggja mat á það hvort að málflutningur stjórnmálamanna byggi á staðreyndum eða rakalausum þvættingi og hvort að framkomnar stefnur stjórnmálaflokkanna í hinum ýmsu málaflokkum séu nýjar og ferskar eða byggi á endurnýtingu eldri stefna með aðstoð gervigreindar, jafnvel frá öðrum stjórnmálaflokkum.

Hvað er gervigreind?

Samkvæmt gervigreindarvef[1] Háskóla Íslands er Gervigreind, eða Artificial Intelligence (AI), tækni sem getur líkt eftir mannlegri greind þar sem tæknin er þjálfuð til að læra, túlka og vinna að verkefnum sem yfirleitt krefjast mannlegrar hugsunar. Þar segir einnig að gervigreind sé að finna í mörgum tækjum og tólum sem við notum daglega, t.d. í símum, leitarvélum og fjölda annarra forrita.

Gervigreindin sjálf segir aðspurð að hún sé eitt svið í tölvunarfræði sem miðar að því að búa til kerfi eða forrit sem geta framkvæmt verkefni sem venjulega krefjast mannlegrar greindar. Og að Gervigreind þyki einkum áhugaverð vegna getu hennar til að leysa flókin vandamál og sjálfvirknivæða ferla sem krefjast venjulega mannlegrar greindar. Hún teygir sig frá einföldum reikniritum yfir í flókin kerfi eins og djúpnám, þar sem tauganet eru nýtt til að líkja eftir ákveðnum þáttum í starfsemi mannheila.

Stjórnmálin og gervigreind

Námsmenn og almenningur hefur í auknum mæli hagnýtt sér gervigreindina. En hvað með stjórnmálin?

Ég spurði gervigreindarforritið GPT-4o að því annarsvegar með hvaða hætti gervigreind getur verið hjálpleg stjórnmálaflokkum til að ná til almennings fyrir kosningar og hins vegar hvort að hægt sé að nýta hana til að búa til stefnur fyrir stjórnmálaflokka um hin ýmsu málefni sem tengjast daglegu lífi fólks?

Ekki stóð á svörum og innan fárra sekúndna birtist fyrir framan mig ítarleg svör við fyrirspurnum mínum. Við fyrri spurningunni kom eftirfarandi svar:

„Gervigreind getur verið mjög hjálpleg fyrir stjórnmálaflokka til að ná til almennings fyrir kosningar með eftirfarandi hætti:

  1. Gervigreind getur greint niðurstöður skoðanakannana og önnur gögn til að skilja hvað kjósendur eru að hugsa og hverjar væntingar þeirra eru. Þessi greining getur hjálpað stjórnmálaflokkum að aðlaga boðskapinn sinn að þörfum og áhugamálum kjósenda.
  2. Gervigreind getur hjálpað til við að búa til persónusnið af kjósendum byggt á gögnum um áhugamál, kosningahegðun, fyrri kosningarsókn og önnur viðhorf. Það gerir flokkunum kleift að hanna sérsniðinn boðskap fyrir mismunandi hópa.
  3. Með því að nýta gögn kjósenda um hegðun á netinu, eins og hvaða samfélagsmiðlar kjósendur nota, geta stjórnmálaflokkar ákvarðað hvaða boðleiðir eru skilvirkastar til að ná til þeirra, hvort sem er í gegnum tölvupóst, auglýsingar á samfélagsmiðlum eða beint í gegnum síma.
  4. Gervigreind getur aðstoðað við að skilja hvernig kjósendur bregðast við ákveðnum boðskap eða tilkynningum, sem getur leitt til betri samræðu og samskipta milli stjórnmálaflokksins og almennings.
  5. Með inntaksgreiningum getur gervigreind hjálpað stjórnmálaflokkum að bregðast við ábendingum og gagnrýni kjósenda strax, sem getur aukið traust og sýnileika flokksins.
  6. Gervigreind getur greint áhugaverða viðburði í samfélaginu, svo stjórnmálaflokkar geti skipulagt atburði eða móttökur sem laða að sér kjósendur.
  7. Gervigreind getur hjálpað til við að þróa árangursríkar auglýsingar og málflutning sem snerta kjósendur á persónulegan hátt.

Með þessu móti getur gervigreind veitt stjórnmálaflokkunum dýrmæt úrræði og upplýsingar sem gera þeim kleift að móta aðferðir sínar fyrir kosningar á áhrifaríkan hátt.“

Við seinni spurningunni, „Er hægt að nýta gervigreind til að búa til stefnu fyrir stjórnmálaflokka um hin ýmsu málefni sem tengjast daglegu lífi fólks?“ kom eftirfarandi svar:

„Já, gervigreind getur verið gagnleg við að þróa stefnu fyrir stjórnmálaflokka á ýmsum sviðum. Hér eru nokkrar leiðir til að nýta gervigreind í þessu samhengi:

  1. Gervigreind getur greint stór gagnasöfn, eins og skoðanakannanir eða gögn frá samfélagsmiðlum, til að skilja betur hvað almenningur telur mikilvægt og hvers vegna.
  2. Með spálíkönum er hægt að spá fyrir um þróun og breytingar í samfélaginu, sem getur hjálpað stjórnmálaflokkum að móta stefnu til langs tíma.
  3. Gervigreindarverkfæri geta hjálpað við að greina og stjórna upplýsingaflæði í opinberri umræðu, þannig að hægt sé að bregðast skjótt við nýjum og óvæntum aðstæðum og koma skilaboðum til kjósenda á áhrifaríkan hátt.
  4. Með því að nota hermun og líkanagerð geta stjórnmálaflokkar metið möguleg áhrif ákveðinna stefnumála og valið þann kost sem eykur líkum á jákvæðum viðbrögðum.
  5. Gervigreindin getur lagt til nýstárlegar lausnir og úrræði fyrir stefnumál, byggðar á fyrri reynslu og fyrirliggjandi gögnum.

Þrátt fyrir þessa möguleika er mikilvægt að gæta þess að mannleg yfirsýn og dómgreind séu alltaf hluti af ferlinu, þar sem gervigreind er tæki til að styðja við ákvarðanatöku, ekki staðgengill fyrir mannlega þekkingu og siðferðislegt mat. Þar að auki þarf öll notkun gervigreindar í stjórnmálum að vera gagnsæ og rekjanleg til að tryggja ábyrgð og traust meðal almennings.“

Gervigreind í íslenskum stjórnmálum

Með aðstoð gervigreindar er tiltölulega einfalt að greina og staðreyna málflutning og framkomnar stefnur íslenskra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Með hennar aðstoð er sem dæmi afar erfitt að hunsa þá staðreynd að stefna Samfylkingarinnar í húsnæðismálum virðist í raun ekki annað en klæðskerasniðin endurvinnsla á fyrri stefnu ríkisstjórnarinnar sem unnin var undir forystu Framsóknar. Ef grannt er skoðað að þá er orðalag og áherslur svo sláandi líkar að það gefur til kynna ákveðna hugmyndafræðilega leti af hálfu forystu Samfylkingarinnar. Er þetta virkilega besta lausnin sem Samfylkingin gat boðið upp á – að taka hugmyndir sem þegar hafa verið kynntar af Framsókn og selja þær aftur undir nýju merki með aðstoð gervigreindar?

Hér á eftir má sjá tólf dæmi um líkindin á milli stefnunnar sem unnin var undir forystu Framsóknar þá og stefnu Samfylkingarinnar nú:

Sérstök áhersla er lögð á fjölgun félagslegra íbúða: Báðar stefnurnar leggja ríka áherslu á að fjölga félagslegum leiguíbúðum fyrir þá sem standa verst og orðalagið „stuðla að fjölgun félagslegra íbúða“ er nánast samhljóða í báðum skjölum.

Stuðla að aukinni nýtingu íbúðarhúsnæðis: Í báðum stefnum er lögð áhersla á að nýta vannýttar eða auðar íbúðir betur, með tillögum um reglur eða aðgerðir til að koma þeim aftur í notkun.

Auka samstarf við einkaaðila: Báðar stefnurnar tala um mikilvægi samstarfs við einkageirann til að hraða húsnæðisuppbyggingu, og orðalagið „samstarf við byggingaraðila og fjárfesta“ er nánast eins.

Átak til uppbyggingar íbúða: Í báðum skjölum kemur fyrir orðalagið „átak verði gert til að fjölga íbúðum“ sem lýsir markvissum aðgerðum til að auka framboð.

Heimildir til sveitarfélaga: Báðar stefnurnar leggja áherslu á að veita sveitarfélögum vald til að setja skilyrði um notkun lands fyrir viðráðanlegt húsnæði, og orðalagið endurspeglar nánast sömu hugsun.

Skilvirkara byggingar- og skipulagsferli: Í báðum stefnum er talað um að einfalda og hraða byggingarferlum, með mjög svipuðu orðalagi sem lýsir nauðsyn þess að bæta skilvirkni.

Bætt upplýsingagjöf: Báðar stefnurnar leggja mikla áherslu á gagnsæi og skýra upplýsingagjöf, meðal annars með fjöltyngdum upplýsingum til að ná til allra.

Markviss stuðningur og félagslegt réttlæti: Orðalagið „markviss stuðningur“ kemur fyrir í báðum skjölum og er sett fram sem lykilatriði í að tryggja réttindi þeirra sem standa höllum fæti, með áherslu á félagslegt réttlæti og jafnrétti.

Vistvæn uppbygging og sjálfbærni: Báðar stefnur leggja áherslu á umhverfisvænar lausnir og nota líkt orðalag til að lýsa nauðsyn sjálfbærni, með tilvísun í hugmyndafræði eins og Nýju norrænu kolefnishlutlausu Bauhaus-hreyfinguna.

Stafrænar lausnir og skilvirkni: Bæði skjölin leggja áherslu á nýtingu stafrænna lausna til að einfalda byggingarferli, með sömu áherslu á skilvirkni.

Félagslegt hlutverk húsnæðismarkaðarins: Húsnæðismarkaðurinn er skilgreindur sem grunnþáttur í samfélagslegu öryggi í báðum skjölum, og stefnurnar tala báðar um mikilvægi þess að tryggja jafnvægi í framboði og eftirspurn.

Áhersla á leigumarkaðinn: Báðar stefnurnar leggja fram tillögur um bætt réttaröryggi leigjenda, með mjög líku orðalagi sem snýr að vernd þeirra gegn ósanngjörnum hækkunum.

Óneitanlega eru orðalag og áherslur í stefnu Samfylkingarinnar svo áþekkar fyrri stefnu ríkisstjórnarinnar sem unnin var undir forystu Framsóknar að lesandi getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort það þurfi virkilega að grafa upp gamlar hugmyndir og kynna þær sem ferskar lausnir? Endurtekningar á orðtökum og hugmyndum gefa sterkar vísbendingar um að Samfylkingin hafi valið auðveldari leiðina – að nýta sér og endurvinna hugmyndafræði sem þegar hefur verið kynnt.

Þó að hægt sé að halda því fram að báðar stefnur svari sömu húsnæðisáskorunum, er samræmið of mikið og samhljómurinn of augljós til að hægt sé að horfa fram hjá þeim. Í stað þess að koma með nýjar lausnir virðist Samfylkingin frekar hafa stólað á orðfæri og hugmyndir sem þegar hefur verið unnið að. Báðar húsnæðisstefnunnar eru góðra gjalda verðar en þessi vinnubrögð vekja vissulega upp spurningar um stefnumótandi hæfileika nýrrar forystu Samfylkingarinnar. Er þá ekki bara betra að kjósa Framsókn?

P.s. Það skal upplýst að við ritun greinarinnar var stuðst við gervigreind.

Höfundur er byggingarverkfræðingur og stuðningsmaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×