Lífið

Quincy Jones er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Quincy Jones.
Quincy Jones. AP

Bandaríski tónlistarmaðurinn og framleiðandinn Quincy Jones er látinn, 91 árs að aldri.  

AP greinir frá andlátinu í morgun. Jones er af flestum talinn einn af risum bandarískrar tónlistar og var meðal annars framleiðandi Thriller, plötu Michael Jackson frá árinu 1985, og átti farsælt samstarf með fleiri tónlistarstjörnum á borð við Frank Sinatra, Arethu Franklin og Ray Charles.

Talsmaður fjölskyldu Jones segir hann hafa andast í faðmi fjölskyldu sinnar á heimili sínu í Los Angeles í gærkvöldi.

Jones var einna þekktastur fyrir að hafa framleitt þrjár af mest seldu plötum Michael Jackson – Bad, Off the Wall og Thriller. Hann var sömuleiðis í hópi framleiðenda risasmellsins We are the World frá árinu 1985.

Quincy Jones samdi jafnframt tónlist fyrir fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda, meðal annars sjónvarpsþáttanna Roots og Óskarsverðlaunamyndarinnar In the Heat of the Night.

Hann var tilnefndur til Grammy-verðlauna áttatíu sinnum og hlaut Grammy-verðlaun alls 28 sinnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×