Enski boltinn

Liverpool-stjarnan slapp með skrekkinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ibrahima Konate og Virgil van Dijk eru öflugir saman en hér fagna þeir sigri ásamt markverðinum Caoimhin Kelleher.
Ibrahima Konate og Virgil van Dijk eru öflugir saman en hér fagna þeir sigri ásamt markverðinum Caoimhin Kelleher. Getty/Alexander Hassenstein

Ibrahima Konaté fór meiddur af velli í leik Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um helgina og meiðslin litu alls ekki vel út. Stuðningsmenn Liverpool geta nú andað léttar.

Fyrirliðinn Virgil van Dijk varð fyrir því óláni að stíga á hendi Konaté undir lok fyrri hálfleiks í 2-1 sigri Liverpool á Brighton.

Franski miðvörðurinn var sárþjáður þegar hann gekk til hálfleiks. Honum var skipt af velli í framhaldinu.  Konaté kom hins vegar með góðar fréttir á samfélagsmiðlum.

„Sem betur fer þá eru meiðslin ekki alvarleg. Ég fór í skoðun í dag og er ekki brotinn. Ég verð tilbúinn fyrir næsta leik,“ skrifaði Konaté á miðla sína.

Konaté hefur spilað mjög vel við hlið Van Dijk í vörn Liverpool liðsins og samvinna þeirra á mikinn þátt í góðri byrjun liðsins undir stjórn Arne Slot.

Liverpool lenti undir á móti Brighton en skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og tryggði sér sigurinn.

Sigurinn skilaði liðinu upp í toppsætið nú þegar tíu leikir eru búnir. Næsti leikur er í Meistaradeildinni á móti Bayer Leverkusen á þriðjudagskvöldið. Liðið mætir svo Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×