Fyrirliðinn Virgil van Dijk varð fyrir því óláni að stíga á hendi Konaté undir lok fyrri hálfleiks í 2-1 sigri Liverpool á Brighton.
Franski miðvörðurinn var sárþjáður þegar hann gekk til hálfleiks. Honum var skipt af velli í framhaldinu. Konaté kom hins vegar með góðar fréttir á samfélagsmiðlum.
„Sem betur fer þá eru meiðslin ekki alvarleg. Ég fór í skoðun í dag og er ekki brotinn. Ég verð tilbúinn fyrir næsta leik,“ skrifaði Konaté á miðla sína.
Konaté hefur spilað mjög vel við hlið Van Dijk í vörn Liverpool liðsins og samvinna þeirra á mikinn þátt í góðri byrjun liðsins undir stjórn Arne Slot.
Liverpool lenti undir á móti Brighton en skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og tryggði sér sigurinn.
Sigurinn skilaði liðinu upp í toppsætið nú þegar tíu leikir eru búnir. Næsti leikur er í Meistaradeildinni á móti Bayer Leverkusen á þriðjudagskvöldið. Liðið mætir svo Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.