Erlent

Rauð veður­viðvörun og 80 flug­ferðum af­lýst eða frestað

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Frá El Prat-flugvelli í Barcelona-borg.
Frá El Prat-flugvelli í Barcelona-borg. AP/Mariona Batalla Taylor

Viðbragðsaðilar vinna enn hörðum höndum við að finna fólk sem hefur verið leitað síðan hamfaraflóð gekk yfir suðausturhluta spánar á þriðjudagskvöldið. Þeir einblína nú á bílakjallara í Valensía-héraði. Óttast er að tala látinna muni hækka. 

Fréttastofa BBC greinir frá. 217 hið minnsta eru látnir. Veðurstofa Spánar hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir hluta Katalóníu-héraðs vegna mikillar úrkomu. Mikið vatn flæddi yfir götur Barselóna-borgar í morgun.

Flugvöllurinn á floti

Fjölmiðlar í Katalóníu hafa birt ljósmyndir af ökutækjum sem voru að hluta á kafi á akbrautum í borginni. Hluti af El Prat-flugvellinum í borginni er einnig á floti. Að minnsta kosti 80 flugferðum til og frá flugvellinum hefur verið aflýst eða frestað. Lestarkerfið í borginni er í lamasessi.

Tugþúsundir sjálfboðaliða hafa farið inn á hamfarasvæðin í Valensía-héraði á Spáni til aðstoðar en Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, fyrirskipaði í gær að tíu þúsund her- og lögreglumenn yrðu sendir til björgunar- og hreinsunarstarfa. 

Óvíst hve margra er enn saknað

Óttast er að fjöldi starfsmanna og búðargesta hafi orðið innlyksa í bifreiðageymslu á nokkrum hæðum við verslunarmiðstöð við Valensía-borg. Stór hluti bílastæðahússins er enn á floti. Óvíst er hve margra er enn saknað í Valensía-héraði.

Töluvert ósætti ríkir meðal almennings í garð yfirvalda á svæðinu en mótmælendur réðust að Filippusi Spánarkonungi þegar hann heimsótti Valensíahérað í gær. Almenningur hefur reiðst yfir því að stjórnvöld hafi ekki búið sig nægjanlega vel undir flóðin eða varað íbúa við.


Tengdar fréttir

Beðin um að tilkynna líkfundi

Að minnsta kosti 51 er látinn í Valensía-héraði í hamfaraflóðum sem gengið hafa yfir suðausturhluta Spánar síðan í gær. Fjöldi Íslendinga hefur vetursetu á Spáni og í grennd við Valensía en utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála þar fyrir sunnan. Íslendingur á svæðinu segir óraunverulegt að upplifa hamfarirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×