Fréttastofa BBC greinir frá. 217 hið minnsta eru látnir. Veðurstofa Spánar hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir hluta Katalóníu-héraðs vegna mikillar úrkomu. Mikið vatn flæddi yfir götur Barselóna-borgar í morgun.
Flugvöllurinn á floti
Fjölmiðlar í Katalóníu hafa birt ljósmyndir af ökutækjum sem voru að hluta á kafi á akbrautum í borginni. Hluti af El Prat-flugvellinum í borginni er einnig á floti. Að minnsta kosti 80 flugferðum til og frá flugvellinum hefur verið aflýst eða frestað. Lestarkerfið í borginni er í lamasessi.
Tugþúsundir sjálfboðaliða hafa farið inn á hamfarasvæðin í Valensía-héraði á Spáni til aðstoðar en Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, fyrirskipaði í gær að tíu þúsund her- og lögreglumenn yrðu sendir til björgunar- og hreinsunarstarfa.
Óvíst hve margra er enn saknað
Óttast er að fjöldi starfsmanna og búðargesta hafi orðið innlyksa í bifreiðageymslu á nokkrum hæðum við verslunarmiðstöð við Valensía-borg. Stór hluti bílastæðahússins er enn á floti. Óvíst er hve margra er enn saknað í Valensía-héraði.
Töluvert ósætti ríkir meðal almennings í garð yfirvalda á svæðinu en mótmælendur réðust að Filippusi Spánarkonungi þegar hann heimsótti Valensíahérað í gær. Almenningur hefur reiðst yfir því að stjórnvöld hafi ekki búið sig nægjanlega vel undir flóðin eða varað íbúa við.