Þórir hættir með Noreg eftir Evrópumótið sem hefst í lok þessa mánaðar. Á fimmtán árum sem aðalþjálfari Noregs hefur liðið sextán sinnum unnið til verðlauna á stórmóti, nú síðast Ólympíumeistaratitil í París í sumar.
Þórir segir sínar konur hins vegar einu sinni hafa „fallið á prófinu“, og á þá ekki við hvað árangur varðar heldur með hegðun sinni gagnvart mótherjunum. Það var á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi árið 2017.
Þær norsku mættu sigurstranglegar á mótið og komust með sannfærandi hætti í úrslitaleikinn, en töpuðu þar í spennuleik gegn Frökkum, 23-21. Vonbrigðin voru mikil og tárin runnu hjá leikmönnum norska liðsins, en Þórir segir að þarna hafi þeir farið gegn gildum norska handknattleikssambandsins.
„Þarna fannst mér við falla á prófinu,“ sagði Þórir við NRK í gær.

„Frakkland vann því liðið var betra en við, og við áttum skilið að tapa. Eftir leikinn voru auðvitað vonbrigði og miklar tilfinningar. Ef maður skoðar myndir frá verðlaunaafhendingunni þá var framkoma okkar ekki samkvæmt gildum okkar. Þetta átti ekki við um þær allar en margar. Við heiðruðum ekki liðið sem vann og bárum ekki virðingu fyrir því að þær voru betri en við,“ sagði Þórir.
Hann var ekki einn um að verða fyrir vonbrigðum með framkomu norska liðsins því franska stjarnan Alexandra Lacrabere kvartaði til að mynda undan skorti á virðingu frá norsku leikmönnunum, og sagði það væri „dásamlegt að sjá Noru Mörk gráta“.

Þórir sá til þess að leikmenn lærðu sína lexíu og færu eftir sínum gildum, sem meðal annars segja að leikmenn eigi að sýna heiðarleika og virðingu gagnvart andstæðingum sínum.
„Við unnum með þetta eftir á. Við tókum á þessu og notuðum myndir til að sýna dæmi. Það er í lagi að vera leiður, og það er í lagi að vera vonsvikinn. Það er meira að segja í lagi að verða pirraður. En þegar maður fer og tekur við verðlaununum þá sýnir maður sigurvegaranum virðingu. Og maður getur sett upp smá bros, jafnvel þó að það sé ekki alvöru bros,“ sagði Þórir.
Hann segir leikmenn hafa brugðist vel við og staðið við gildin eftir þetta.
„Þegar allt gengur vel þá er auðvelt að standa við gildin. En þegar það gengur ekki eins vel þá reynir á fólk. Við erum bara mannleg. Stundum bregðumst við rétt við og stundum rangt við. Árið 2017 gerðum við mistök en mér fannst við komast fljótt á réttan kjöl.“