Fótbolti

Stuðnings­menn Arsenal mega ekki kaupa á­fengi í Mílanó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal geta ekki fengið sér bjór fyrir leikinn gegn Inter.
Stuðningsmenn Arsenal geta ekki fengið sér bjór fyrir leikinn gegn Inter. getty/Jacques Feeney

Þeir stuðningsmenn Arsenal sem verða á leiknum gegn Inter í Meistaradeild Evrópu á morgun mega ekki kaupa sér áfengi fyrir viðureignina.

Arsenal fékk úthlutað 4.361 miða á San Siro fyrir leikinn gegn Inter. Fjölmargir stuðningsmenn Arsenal munu því gera sér ferð til Mílanó til að fylgjast með sínum mönnum gegn ítölsku meisturunum.

Stuðningsmennirnir munu þó ekki geta vökvað sig fyrir leikinn því áfengisbann hefur verið sett á í miðborg Mílanó tólf tímum áður en leikurinn hefst. Með áfengisbanninu á að auka öryggi vallargesta og koma í veg fyrir uppþot í tengslum við leikinn.

Þetta er ekkert nýtt fyrir stuðningsmenn Arsenal en þeir máttu heldur ekki kaupa áfengi fyrir leikinn gegn Atalanta í Meistaradeildinni. Þar voru þó sérstakir staðir þar sem mátti drekka, undir vökulu auga lögreglunnar.

Arsenal og Inter eru bæði með sjö stig í Meistaradeildinni. Liðin eru í 7. og 9. sæti en átta efstu liðin komast beint áfram í sextán liða úrslit.

Leikur Inter og Arsenal hefst klukkan 20:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×