Innlent

Á­kærður fyrir hnefa­högg á Lúx sem leiddi til dauða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx.
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx. Vísir/Vilhelm

Íslendingur á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða litáísks karlmanns í skemmtistaðnum Lúx í Austurstræti í Reykjavík í júní í fyrra.

Manninum er gefið að sök að hafa á skemmtistaðnum slegið karlmanninn fyrirvaralaust eitt högg á vinstri hluta hálsins aftan við eyrað þannig að hann fékk slink á höfuðið.

Afleiðingarnar voru þær að maðurinn lést af völdum altæks heiladreps vegna innanskúmsblæðingar af völdum rofs á vinstri aftari neðri hnykilsslagæðinni, segir í ákæru.

Karlmaðurinn var meðvitundarlaus þegar lögregla kom á vettvang og árásarmaðurinn farinn af vettvangi. Hann var handtekinn í nágrenninu.

Skemmtistaðurinn sem um ræðir hét LÚX, en honum hefur verið lokað og annar skemmtistaður opnað á sama stað. Sjónarvottar að árásinni sögðu að maðurinn sem lést hefði einungis hlotið eitt hnefahögg.

Hinn látni var frá Litáen og hafði búið hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Kærasta hans hefði flutt til landsins tveimur vikum fyrir andlátið.

Gerð er krafa um að ákærði greiði aðstandanda mannsins tæplega 900 þúsund krónur auk miskabóta upp  á þrjár milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×