Erlent

Fundu morðingja putta­ferðalangs fimm­tíu árum síðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mary Schlais var 25 ára þegar hún fannst látin árið 1974.
Mary Schlais var 25 ára þegar hún fannst látin árið 1974. Lögregluembættið í Dunn-sýslu

Karlmaður á níræðisaldri var handtekinn í bænum Owatonna í Minnesota á fimmtudag, grunaður um að hafa orðið 25 ára konu að bana fyrir fimmtíu árum síðan. 

Mary K. Schlais fannst látin í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum í febrúar árið 1974. Hún hafði verið að húkka far til Chicago þar sem hún ætlaði á listasýningu. Lögreglumenn töldu eitthvað saknæmt hafa átt sér stað og ræddu við fjölda manns við rannsóknina. Aldrei fannst neinn sem talinn var hafa framið verknaðinn. 

Síðustu áratugi hafa ýmsir lögreglufulltrúar tekið við rannsókninni og skoðað vísbendingar, án árangurs. Nýlega fór lögregluembættið í Dunn-sýslu í Wisconsin að vinna með erfðafræðingum við Ramapo-háskóla í New Jersey. Þeim tókst að tengja hinn 84 ára gamla Jon Miller við málið með gena- og DNA-rannsóknum. Það hefur ekki verið greint frá því hvernig nákvæmlega var farið að því að tengja Miller við morðið.

Á miðvikudag heimsóttu lögreglufulltrúar Miller og þar játaði hann tengsl sín við andlát Schlais. Hann var handtekinn í kjölfarið. Að þeirra sögn var hann nokkuð rólegur vegna handtökunnar. 

„Ég tel meira að segja að honum hafi verið nokkuð létt eftir að hafa haldið þessu leyndarmáli í fimmtíu ár. Þetta hlýtur að hafa verið honum ofarlega í huga næstum því hvern einasta dag. Það væri það að minnsta kosti hjá öllum með einhverja samvisku,“ hefur CNN eftir lögreglustjóranum Kevin Bygd.

Fjölskyldu Schlais var létt við að heyra af því að morðinginn hafi loksins fundist eftir öll þessi ár. Þau voru lögreglunni afar þakklát fyrir að gefast ekki upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×