Erlent

Á­kærður fyrir ráða­brugg um að ráða Trump af dögum

Árni Sæberg skrifar
Donald Trump virðist eiga fleiri óvini en flestir.
Donald Trump virðist eiga fleiri óvini en flestir. Michael M. Santiago/Getty

Íranskur karlmaður hefur ákærður fyrir tengsl hans við meint ráðabrugg um að ráða Donald Trump, nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, af dögum. Hann segir íranska byltingarvörðinn hafa verið að baki ráðabrugginu.

Reuters hefur eftir dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna að maðurinn, Farhad Shakeri, hafi greint löggæsluyfirvöldum frá því að íranski byltingarvörðurinn, úrvalssveitir klerkastjórnarinnar í Íran, hafi skipað honum þann 7. október síðastliðinn að mynda áætlun um hvernig mætti koma Trump fyrir kattarnef. Hann hafi sagst ekki hafa haft í hyggju að framfylgja skipunum klerkastjórnarinnar. 

Shakeri er 51 árs og var búsettur í Bandaríkjunum til ársins 2008, þegar honum var vísað úr landi eftir að hafa verið sakfelldur fyrir rán. Að sögn dómsmálaráðuneytisins er hann talinn vera í Íran og hans sé leitað.

Haft er eftir Esmail Baghaei, talsmanni utanríkisráðherra Írans að fullyrðingar um meint ráðabrugg væri „viðurstyggilegt“ samsæri Ísraels og annarra andstæðinga Írans um að flækja samskipti milli Írans og Bandaríkjanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íranir eru sakaðir um að hafa ætlað að myrða Trump en hann hefur sjálfur sagst vonast til þess að Bandaríkin þurrki Íran út af kortinu, verði meintar áætlanir þeirra að veruleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×