Innlent

Yazan og fjöl­skylda leita að nýju hús­næði

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Yazan ásamt foreldrum sínum Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi.
Yazan ásamt foreldrum sínum Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi. facebook

Yazan Tamimi, ellefu ára langveikur drengur frá Palestínu, og fjölskylda sem fengu samþykkta vernd í síðasta mánuði leita nú logandi ljósi að húsnæði sem hentar fjölskyldunni og sérþörfum Yazans. 

Bergþóra Snæbjörnsdóttir rithöfundur og vinkona fjölskyldunnar auglýsir eftir húsnæði fyrir hönd fjölskyldunnar á Facebook. 

„Þau eru að reyna að finna hentugt húsnæði, sem er auðvitað ekki einfalt. En þau eru bara spennt að byrja upp á nýtt,“ segir Bergþóra í samtali við Vísi.

Húsnæðið sem fjölskyldan býr í er ætlað umsækjendum um alþjóðlega vernd. Nú þegar fjölskyldan hefur fengið viðbótarvernd þurfa þau að finna sér nýtt húsnæði.  „Það verður auðvitað að vera aðgengi fyrir hjólastól og þess háttar,“ segir Bergþóra

Hún bætir við að fjölskyldan sé alsæl með nýja lífið. „Í rauninni enn að lenda.“ Bæði séu foreldrarnir að leita sér að vinnu en Yazan er í skóla. 

Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi flúðu ásamt syni þeirra Yazan til Íslands í júní 2023. Fjölskyldan er frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu og flúði vegna versnandi ástands í landinu og aðkasts yfirvalda en einnig vegna skorts á þjónustu fyrir Yazan.

Vísa átti fjölskyldunni úr landi í síðasta mánuði en aðgerðinni var frestað að beiðni dómsmálaráðherra. Eftir það tilkynnti embætti ríkislögreglustjóra að ekki yrði farið í aðra brottvísunaraðgerð vegna þess að svo stutt væri í að fjölskyldan ætti rétt á því að umsókn þeirra yrði tekinn til efnislegrar meðferðar. Sá tímafrestur rann út 21. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×