Enski boltinn

Liverpool hefur á­hyggjur af meiðslunum hjá Trent

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Curtis Jones hugar að Trent Alexander-Arnold eftir að bakvörðurinn settist skyndilega niður í grasið.
Curtis Jones hugar að Trent Alexander-Arnold eftir að bakvörðurinn settist skyndilega niður í grasið. Getty/Carl Recine

Þetta var mjög gott gærkvöld fyrir Liverpool fólk fyrir utan það að lykilmaðurinn Trent Alexander-Arnold fór snemma meiddur af velli. Knattspyrnustjórinn Arne Slot hefur áhyggjur af meiðslunum.

Mörk frá Darwin Núñez og Mohamed Salah tryggðu Liverpool 2-0 sigur á Aston Villa og þar með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Alexander-Arnold settist skyndilega niður á grasið í fyrri hálfleiknum og fór síðan af velli eftir um þriggja mínútna meðhöndlun.

Slot efast um það að Alexander-Arnold geti spilað með enska landsliðinu í komandi glugga þar sem Englendingar mæta Grikkjum og Írum.

Slot las það úr viðbrögðum hins 26 ára gamla Alexander-Arnold að þetta gætu verið leiðinleg meiðsli.

„Það er erfitt að segja hversu alvarlegt þetta er en það eru alltaf alvarleg meiðsli þegar leikmaður fer af velli í fyrri hálfleik,“ sagði Arne Slot. ESPN segir frá.

„Hann bað um skiptinguna og það var ekki vegna þess að hann var þreyttur. Hann fann fyrir einhverju,“ sagði Slot.

„Það lítur ekki vel út en það er alltaf mjög erfitt að meta svona meiðsli svo skömmu eftir leik. Það kæmi mér samt mikið á óvart ef hann getur verið með landsliðinu í næstu viku en vonandi,“ sagði Slot.

Liverpool hefur unnið fimmtán af sautján leikjum sínum undir stjórn Slot og er á toppnum í bæði deild og Meistaradeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×