Fótbolti

Gleymdi að kjósa Vinicius Junior

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þrír blaðamenn voru ekki með Vinicius Junior á topp tíu listanum sínum. Hann átti frábærtár og skoraði þrennu í leik Real Madrid í gær.
Þrír blaðamenn voru ekki með Vinicius Junior á topp tíu listanum sínum. Hann átti frábærtár og skoraði þrennu í leik Real Madrid í gær. Getty/Diego Souto

Vinicius Junior fékk ekki Gullhnöttinn í ár og bæði hann og öll Real Madrid fjölskyldan fór í fýlu. Real fólkið kemst örugglega ekki betra skap við það að heyra um vinnubrögð sumra blaðamannanna sem voru með atkvæðarétt í kjörinu.

Nýtt dæmi um slök vinnubrögð voru þau hjá finnska blaðamanninum Juha Kanerva sem skrifar fyrir stórblaðið Ilta-Sanomat.

Kanerva hefur nú komið fram og viðurkennt það að hann hafi gleymt að kjósa Vinicius Junior.

Kanerva sagði frá þessu þegar Real Madrid stuðningsmaður benti á þá staðreynd að Kanerva var einn af þremur blaðamönnum sem var ekki með Vinicius Junior á lista.

„Mín mistök. Ég mun segja af mér og hætta í valnefnd Ballon d'Or,“ svaraði Juha Kanerva.

Rodri fékk Gullhnöttinn en hann endaði með 41 stigi meira en Vinicius.

Víðir Sigurðsson, sem kaus fyrir Ísland, var með Rodri númer eitt og Vinicius númer tvö.

Blaðamennirnir sem voru ekki með Vinicius á tíu manna lista sínum voru auk Kanerva þeir Bruno Porzio frá El Salvador og Sheefeni Nikodemus frá Namibíu.

Porzio hafði gefið það út að hann setti Vinicius ekki á lista hjá sér af því að hann var ósáttur með karakter og hegðun leikmannsins. Hann setti Jude Bellingham í fyrsta sætið og Erling Haaland númer tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×