Fótbolti

Sæ­var Atli skoraði og fiskaði mikil­vægt víti fyrir Lyngby

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sævar Atli Magnússon skoraði sitt annað mark á tímabilinu en því miður dugði það ekki til að fá stig í dag.
Sævar Atli Magnússon skoraði sitt annað mark á tímabilinu en því miður dugði það ekki til að fá stig í dag. Getty/Mike Egerton

Sævar Atli Magnússon skoraði mark Lyngby og fiskaði víti undir lokin sem gaf liðinu jöfnunarmarkið og mikilvægt stig í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Lyngby gerði þá 2-2 jafntefli  á heimavelli á móti AaB eftir að hafa komist yfir snemma leiks.

Eftir leikinn þá er Lyngby í næst neðsta sæti deildarinnar með einn sigur og tíu stig í fimmtán leikjum. AaB er tveimur sætum og sex stigum ofar.

Sævar Atli kom sínu liði yfir strax á áttundu mínútu og Lyngby var yfir í 47 mínútur.

Leikmenn AaB snéru hins vegar við leiknum með tveimur mörkum á fjórum mínútum. Það fyrra skoraði John Iredale en það seinna gerði Melker Widell.

Lyngby menn gáfust ekki upp og gátu þakkað íslenska landsliðsframherjanum fyrir það að stigið kom í hús.

Sævar Atli fiskaði vítaspyrnu á lokamínútunum og úr henni skoraði Frederik Gytkjær jöfnunarmarkið. Sævar fiskaði líka í leiðinni einn leikmann AaB af velli með rautt spjald.

Þetta var annað mark Sævars Atla á tímabilinu en hann skoraði einnig í 1-1 jafntefli við Randers í byrjun október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×