Erlent

Aldrei jafn margar drónaárásir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hörð átök eru á milli Rússa og Úkraínumanna.
Hörð átök eru á milli Rússa og Úkraínumanna.

Umfangsmiklar árásir voru gerðar í Úkraínu og Rússlandi síðastliðna nótt. Aldrei hafa jafn margir drónar verið sendir af stað í einu. 

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segist hafa stöðvað 84 dróna senda af Úkraínumönnum, þar af 34 sem stefndu að höfuðborginni Moskvu. Árás Úkraínumanna var stærsta árás þeirra á höfuðborgina síðan stríðið hófst fyrir um tveimur og hálfu ári.

Flugumferð var beint frá þremur helstu flugvöllum Moskvu. 

Fimm manns særðust í Ramenskoye í Rússlandi vegna braks. Varnarmálaráðuneytið segir að drónarnir 34 hefðu verið skotnir niður yfir bænum sem er í um 50 kílómetra fjarlægð frá Moskvu.

Þetta kemur fram í umfjöllun BBC.

Í frétt CNN kemur fram að aldrei hafi verið sendir jafn margir drónar í einu í átökunum á milli Rússlands og Úkraínu.

Samkvæmt flugher Úkraínu sendu Rússar samtals 145 dróna yfir landamærin og voru 62 skotnir niður en 67 taldir týndir. Þá sáust tíu drónar fljúga burt til Rússlands og nágrannaríkjanna Hvíta-Rússlands og Moldóvu.

Að minnsta kosti tveir særðust í Odessa í Úkraínu.

Ástæða umfangsmiklu árásanna er talin vera kjör Donald Trump sem forseti Bandaríkjanna. Búist er við að hann muni setja mikinn þrýsting á bæði löndin að stöðva stríðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×