Körfubolti

Kallaði Giannis barn eftir að hann neitaði að taka í höndina á honum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo sló á létta strengi í leik Milwaukee Bucks og Boston Celtics. Það fór ekki vel í Jaylen Brown.
Giannis Antetokounmpo sló á létta strengi í leik Milwaukee Bucks og Boston Celtics. Það fór ekki vel í Jaylen Brown. getty/Brian Fluharty

Jaylen Brown, leikmaður NBA-meistara Boston Celtics, var ekki sáttur við framkomu stórstjörnunnar Giannis Antetokounmpo í leiknum gegn Milwaukee Bucks í gær.

Í 2. leikhluta var dæmd sóknarvilla á Giannis. Hann rétti í kjölfarið hönd sína í átt að Brown en tók hana til baka og renndi fingrunum í gegnum hárið á sér þegar hann ætlaði að taka í hana. Giannis rétti höndina aftur út en þá var Brown búinn að missa áhugann á að taka í spaðann á honum. 

„Giannis er barn,“ sagði Brown eftir leikinn sem Boston vann 107-113. Brown skoraði fjórtán stig í leiknum.

„Ég einbeiti mér bara að því að hjálpa liðinu mínu að vinna. Og það gerðum við í kvöld,“ bætti Brown við.

Viðbrögð Browns komu Giannis á óvart. „Við grínumst alltaf í flæði leiksins. Þetta er eitthvað sem ég geri við krakkana mína; ég leik mér. Svona er ég. Ég spila leikinn af ánægju og gleði.“

Undir lok leiks braut Brown nokkuð harkalega á Giannis og fékk óíþróttamannslega villu fyrir. Hann neitaði því að brotið tengdist handabandinu sem ekki varð í fyrri hálfleik.

Giannis var stigahæsti maður vallarins í gær en hann skoraði 42 stig. Hann tók einnig þrettán fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×