Viðskipti innlent

Horfur tveggja banka úr stöðugum í já­kvæðar

Árni Sæberg skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans og Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans og Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. Vísir

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í dag lánshæfismat Landsbankans og Íslandsbanka og tilkynnti jafnframt um breytingu á horfum úr stöðugum í jákvæðar. Þriðji stóri viðskiptabankinn, Arion banki, sleit samstarfi sínu við S&P fyrr á árinu.

Í tilkynningum bankanna til Kauphallar segir að lánshæfismat þeirra sé nú BBB+/A-2 með jákvæðum horfum.

Í tilkynningu S&P sé vísað til þess að jákvæðar horfur endurspegli mögulega hækkun lánshæfismats vegna aukins viðnámsþróttar auki bankarnir útgáfu skulda sem hafa aukna getu til að taka á sig tap og slíkar skuldir nái lágmarksviðmiði S&P, sem nemi 4 prósent af áhættuvegnum eignum samkvæmt aðferðafræði S&P.

Að mati S&P hafi nýlega samþykktar skilaáætlanir kerfislega mikilvægra banka á Íslandi varpað frekara ljósi á umfang undirskipaðra skuldbindinga sem bönkunum verði gert hafa útistandandi. Miðað við kröfu um undirskipan sem svarar til 23,4 prósent af áhættugrunni, að meðtalinni kröfu um eiginfjárauka, geri S&P ráð fyrir því að bankarnir muni gefa út umtalsvert magn af SNP-skuldabréfum á aðlögunartímabilinu fram til október 2027.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×