Fótbolti

Ó­þekkjan­legur Adriano: „Ég drekk á hverjum degi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adriano hefur glímt við alkahólisma í mörg ár.
Adriano hefur glímt við alkahólisma í mörg ár.

Adriano segir að ferill sinn sé mesta sóun á hæfileikum í fótboltanum. Brasilíumaðurinn glímir við alkahólisma og margir höfðu áhyggjur af honum eftir að myndband af honum þamba bjór úti á götu fór í dreifingu.

Adriano þótti einn besti framherji heims á sínum tíma og skoraði 27 mörk í 48 leikjum fyrir brasilíska landsliðið. Bestu ár sín átti hann hjá Inter en ferilinn fjaraði smám saman út og lauk 2016.

Brasilíumaðurinn hefur nú tjáð sig um líf sitt við The Players Tribune. Þar segist hann hafa kastað hæfileikum sínum á glæ.

„Veistu hvernig það er að vera vonarstjarna? Ég veit það. Meðal annars að uppfylla ekki allar væntingar. Mesta sóun á hæfileikum í fótboltanum? Það er ég,“ sagði Adriano.

„Ég er hrifinn af þessu orði: sóun. Ekki aðeins hvernig það hljómar heldur því ég er heltekinn af því að sólunda lífi mínu. Ég nota ekki eiturlyf eins og þeir reyna að sanna. Ég er ekki glæpamaður en ég hefði að sjálfsögðu getað leiðst inn á þá braut. Ég fer ekki mikið út að skemmta mér. Ég drekk á hverjum degi. Hvernig endar maður í þeirri stöðu? Ég er ekki fyrir það að útskýra það fyrir öðrum. En hér er ein útskýring. Ég drekk því ég það er ekki auðvelt að vera vonarstjarna sem stendur í skuld. Og þetta versnar með árunum.“

Þegar Adriano var á hátindi ferilsins lést faðir hans og eftir það hallaði hratt undan fæti hjá honum og alkahólisminn náði tökum á honum.

Sem fyrr sagði óttuðust margir um Adriano eftir að myndband af honum drukknum úti á götu fór á flug á samfélagsmiðlum. Adriano ráfaði berfættur um miðjan dag, út úr heiminum vegna drykkju og í skelfilegu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×