Körfubolti

Höttur ekki lengi að finna mann í stað McCauley

Valur Páll Eiríksson skrifar
Justin Roberts, nýr leikmaður Hattar.
Justin Roberts, nýr leikmaður Hattar. Georgia State Sports

Höttur hefur samið við Bandaríkjamanninn Justin Roberts um að leika með liðinu út leiktíðina í Bónus deild karla í körfubolta. Hann fyllir skarð Courvoisier McCauley.

McCauley var látinn taka poka sinn í gær en hann hefur ekki heillað í upphafi leiktíðar hjá Hattarmönnum. Hann spilaði sex leiki fyrir liðið í deildinni, skoraði í þeim 18,5 stig að meðaltali, tók 6,2 fráköst og gaf 1,3 stoðsendingar.

Héraðsbúar voru fljótir að finna annan Bandaríkjamann í hans stað og hafa samið við Justin Roberts. Sá er 26 ára gamall bakvörður. Robert hefur spilað í Norður-Makedóníu og Sviss síðustu ár eftir að hafa spilað fyrir Georgia State í háskólaboltanum vestanhafs.

Á síðustu leiktíð skoraði Roberts að meðaltali 26 stig í leik, tók fjögur fráköst og gaf 6,3 stoðsendingar með Union Neuchatel í Sviss.

Í yfirlýsingu Hattar segir að Roberts muni koma hingað til lands eftir helgi og því ljóst að hann spilar ekki leik liðsins við Stjörnuna í Garðabæ annað kvöld.

Höttur vann Íslandsmeistara Vals 83-70 fyrir austan í síðasta leik en hefur unnið þrjá og tapað þremur í fyrstu sex umferðum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×