Enski boltinn

Viður­kennir mis­tök sem bitnuðu illa á Man Utd í lokaleik Ten Hag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthijs de Ligt bendir David Coote dómara á það að boltinn fór í hendi Danny Ings áður en hann fiskaði vítið.
Matthijs de Ligt bendir David Coote dómara á það að boltinn fór í hendi Danny Ings áður en hann fiskaði vítið. Getty/James Gill

Howard Webb, yfirmaður dómara í enska fótboltanum, hefur viðurkennt það að myndbandsdómarar gerðu mistök í leik West Ham og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni fyrr í vetur.

West Ham vann 2-1 sigur á United 27. október en Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var rekinn daginn eftir þetta tap.

Sigurmarkið kom úr umdeildri vítaspyrnu. Vítið var dæmt eftir að myndbandsdómarar kölluðu á David Coote dómara í skjáinn. Myndbandsdómarinn var Michael Oliver.

Eftir að hafa farið í skjáinn þá dæmdi Coote víti á Matthijs de Ligt fyrir brot á Danny Ings. Jarrod Bowen skoraði úr vítinu og endaði um leið stjóraferil Ten Hag á Old Trafford.

„Það var ekki rétt metið hjá VAR að kalla á hann í skjáinn,“ sagði Howard Webb í þættinum Mic'd Up á Sky Sports.

„VAR er vanalega með allt á hreinu og traustsins vert en þarna fara menn að einblína á fótinn á De Ligt. Það að fótur hans hafi farið í Danny Ings en ekki farið í boltann. Boltinn er þegar farinn framhjá De Ligt þegar hann sparkar í Danny Ings,“ sagði Webb.

„VAR sér brotið. Þeir voru bara of mikið að skoða þennan hluta af því sem var í gangi. Ég tel að þeir hafi ekki átt að skipta sér að þessu,“ sagði Webb.

„Þetta er dæmi um það þegar ákvörðunin á vellinum á að standa, sama hvað sé dæmt. Mér sjálfum finnst þetta ekki vera víti,“ sagði Webb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×