Erlent

Ætla ekki að að­stoða hundruð manna í lokaðri námu

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að allt að fjögur þúsund menn haldi til í lokaðri námu í Suður-Afríku, þar sem lögregla hefur lokað á aðgang þeirra að vatni og öðrum nauðsynjum.
Talið er að allt að fjögur þúsund menn haldi til í lokaðri námu í Suður-Afríku, þar sem lögregla hefur lokað á aðgang þeirra að vatni og öðrum nauðsynjum. AP

Yfirvöld í Suður-Afríku ætla ekki að aðstoða allt að fjögur þúsund menn sem sitja í ólöglegri námu í norðvesturhluta landsins. Umsátursástand hefur ríkt við námuna þar sem búið er að loka á aðgang þeirra sem í námunni eru að vatni og öðrum nauðsynjum.

Lögregluþjónar fylgjast með svæðinu í kringum yfirgefna gullnámu en umsátrið er sagt liður í baráttu gegn ólöglegri námustarfsemi í landinu.

Reuters segir að rúmlega þúsund manns hafi komið upp úr námunni eftir að lokað var á flæði nauðsynja þar niður fyrir nokkrum vikum. Margir hafi verið handteknir en mörg hundruð menn eru sagðir vera enn í námunni.

AP fréttaveitan segir að ekki sé fullljóst hve margir séu í námunni en talið er að þeir gætu verið allt að fjögur þúsund. Margir þeirra sem komið hafa upp úr námunni eru sagðir við slæma heilsu eftir langa veru í námunni án nauðsynja.

Khumbudzo Ntshavheni, ráðherra í ríkisstjórn Suður-Afríku sagði í gær að ekki stæði til að hjálpa þeim sem væru enn í námunni.

„Við erum ekki að fara að senda aðstoð til glæpamanna. Við ætlum að svæla þá út,“ sagði Ntshavheni.

Sjálfboðaliðar hafa farið ofan í göngin í leit að námumönnum og hjálpað þeim út. Að minnsta kosti eitt lík hefur fundist.AP/Jerome Delay

Talið er að ólögleg námustarfsemi kosti Suður-Afríku gífurlega mikla peninga á ári hverju. Yfirvöld segja að oft sé um menn frá öðrum löndum að ræða og þá sé líklega um skipulagða glæpastarfsemi að ræða og eru hópar þungvopnaðra manna oft sagðir viðloðnir starfsemina.

Mennirnir eru einnig sagðir valda vandræðum í nærliggjandi samfélögum, þar sem þeir hafa verið sakaðir um glæpi eins og rán og nauðganir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×