Enski boltinn

Enn vesen með at­vinnu­leyfi Rúben Amorim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim hittir hér framkvæmdastjórann Omar Barrada á æfingasvæði Manchester á mánudaginn.
Ruben Amorim hittir hér framkvæmdastjórann Omar Barrada á æfingasvæði Manchester á mánudaginn. Getty/Ash Donelon/

Forráðamenn Manchester United eru sannfærðir um að Rúben Amorim verði kominn með atvinnuleyfi fyrir fyrsta leik.

Amorim átti að byrja í starfi sínu sem knattspyrnustjóri United á mánudaginn en Portúgalinn er ekki enn kominn með atvinnuleyfi.

Forráðamenn eru sannfærðir um að Amorim verði kominn með atvinnuleyfi sitt löngu fyrir fyrsta leik. Fyrsti leikurinn er á móti Ipswich Town um þar næstu helgi.

Hinn 39 ára gamli Amorim er hins vegar enn í óvissu eins og staðan er núna.

ESPN hefur það eftir heimildarmanni innan raða félagsins að málið sé að færast rólega í rétta átt og að félagið búist ekki við neinum alvarlegum vandræðum.

Það þarf ekki aðeins að fá atvinnuleyfi fyrir Amorim heldur einnig fyrir allt teymið hans sem er líka að koma frá Sporting Lissabon.

Ruud van Nistelrooy stýrði United í fjórum leikjum eftir að Erik ten Hag var rekinn en hollenska goðsögnin yfirgaf félagið á mánudaginn eftir þrjá sigra og eitt jafntefli í þessum fjórum leikjum.

Amorim flaug til Manchester á mánudaginn og var strax keyrður upp á Carrington æfingasvæðið þar sem hann hitti helstu ráðamenn félagsins.

Daginn eftir hitti Amorim síðan leikmenn sem eru ekki uppteknir með landsliðum sínum. Meðal þeirra voru Luke Shaw, Leny Yoro, Kobbie Mainoo og Mason Mount.

Amorim fékk síðan kynningarferð um Old Trafford leikvanginn í dag.

Amorim mun ekki halda blaðamannafund þar sem hann er kynntur formlega sem nýr knattspyrnustjóri heldur mun hann hitta fyrst blaðamenn á venjulegum blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Ipswich. Það má búast við því að það verði vel mætt á þann fund.

Stuðningsmenn Manchester United munu þó fá viðtal við Amorim á sjónvarpsstöð félagsins áður en að kemur að Ipswich blaðamannafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×