Erlent

Neitar að segja ef sér þrátt fyrir há­vær á­köll

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Héraðsstjórn Mazón hefur verið gagnrýnd fyrir viðbragð sitt við mannskæðum flóðum í Valensíuhéraði.
Héraðsstjórn Mazón hefur verið gagnrýnd fyrir viðbragð sitt við mannskæðum flóðum í Valensíuhéraði. EPA/Manuel Bruque

Carlos Mazón, forseti Valensíuhéraðs á Spáni, neitar að segja af sér embætti þrátt fyrir hávær köll þess efnis frá íbúum héraðsins. Hamfaraflóð drógu 224 manns til bana þar í síðasta mánuði og viðbrögð stjórnvalda hafa verið harðlega gagnrýnd.

Úrhellisrigning olli því að götur í þorpum Valensíu líktust stórfljótum. Umfangsmikil mótmæli breyttust fljótt í óeirðir og Carlos Mazón hefur sætt mikilli gagnrýni persónulega.

Gagnrýnin beinist helst að því að viðvaranir um umfang flóðanna bárust ekki íbúum héraðsins fyrr en fleiri klukkutímum eftir að ljóst var að um mannskæðar hamfarir væri að ræða. Þá kom það einnig á daginn að Mazón heimsótti ekki samhæfingarstöð flóðaviðbragðsins fyrr en seint um kvöld en varði deginum í löngum hádegisverði með blaðamanni.

Mazón hefur látið hafa eftir sér að héraðsstjórn hafi brugðist við viðbragðið en neitar þó að segja af sér. Hann heldur því fram að umfang flóðanna hafi verið slíkt að kerfið réði ekki við það. Hann hefur jafnframt sakað ríkisstjórn Spánar undir handleiðslu sósíalista um að bregðast ekki nógu skjótt við.

„Of mikið hafði farið úrskeiðis, allt kerfið brást,“ sagði hann þegar hann ávarpaði spænska þingið í morgun.

Guardian greinir frá því að tugir mótmælenda gerðu sér leið á spænska þingið í Madríd til að krefjast afsagnar hans. Fram hefur komið að tæpur helmingur þeirra sem létu lífið í flóðunum mannskæðu voru yfir sjötugu og að níu börn hafi látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×