Ísland vann leikinn með mörkum frá Orra Óskarssyni og Ísaki Bergmann Jóhannessyni á síðustu tuttugu mínútum leiksins.
„Þetta var kannski ekki fallegasti sigurinn. Örugglega alveg hræðilegt að horfa á þetta. Ekki skemmtilegur fótboltaleikur. Þetta var algjört basl. Langir boltar og bara fight. En svo sýndum við gæði þarna frammi í tvö skipti. Tvö góð mörk. Héldum hreinu. Svo ég er sáttur við þetta,“ sagði Guðlaugur Victor.
„Þetta var bara lélegur fótboltaleikur og liðið sem vildi þetta aðeins meira myndi vinna. við gerðum það í kvöld,“ bætti hann við.
Íslands bíður núna úrslitaleikur við Wales um 2. sæti riðilsins, sem jafnframt gefur farseðil í umspil um sæti í A-deildinni.
„Það tókst. Við undirbúum okkur vel og gerum okkur klára í þann leik,“ sagði Guðlaugur Victor.
Hann kom inn á í kvöld eftir rúmlega korters leik, þegar fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson meiddist, ári eftir að Aron spilaði síðast landsleik.
„Já, mjög svekkjandi fyrir Aron. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en hræðilegt fyrir hann, og fyrir okkur,“ sagði Guðlaugur Victor sem gaf grasvellinum í Niksic lægstu einkunn:
„Hann var hræðilegur. Örugglega jafnlélegur og völlurinn sem við áttum að spila á. Þetta voru hræðilegar aðstæður,“ sagði Guðlaugur Victor en völlur Svartfellinga í Podgorica hafði verið úrskurðaður of lélegur til að hægt væri að spila þar.
Viðtalið við Guðlaug Victor má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.