Skoðun

Í­þróttir fyrir alla!

Ingibjörg Isaksen skrifar

Hver króna sem fer til íþróttafélaga er króna sem skilar sér margfalt til baka í samfélagið. Um kosti íþróttastarfs á Íslandi verður ekki deilt. Starfið er faglegt, fjölbreytt og gott. Það sem hefur breyst á undanförnum árum er að íþróttir eru gríðarlega atvinnuskapandi. Félögin á Íslandi í dag eru orðin stærri og komin með fleiri starfsmenn í full störf. Ásamt því að afleidd störf tengd íþróttum á Íslandi, t.d. í ferðaþjónustu, eru orðin ansi mörg og drjúg.

Við getum verið stolt af því starfi sem íþróttahreyfingin á Íslandi sinnir og vinnur. Framsókn leggur áherslu á fjölbreytt og faglegt íþróttastarf. Þannig hefur Framsókn stutt við ÍSÍ m.a. með ráðningu Vésteins Hafsteinssonar og innkomu svæðisfulltrúa ÍSÍ sem eiga að styðja við íþróttastarfið á öllu landinu.

Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mikið það kostar að stunda íþróttir á Íslandi. Fyrir utan hið augljósa sem eru æfingagjöld og búnaðarkaup þá eru ferðalög liða og félaga á landsbyggðinni farin að taka verulegan toll af fjárhagi heimilina. Dæmi eru um að foreldrar með þrjú börn að stunda íþróttir á landsbyggðinni þurfi að reiða fram um 800.000 kr. í ferðakostnað á ári fyrir börnin sín, ofan á áðurnefnd æfingagjöld og búnaðarkaup.

Íþróttastarf á að vera fyrir alla. Það eiga allir að geta stundað sína íþrótt óháð efnahagsstöðu foreldra. Og óháð búsetu! Þarna vill Framsókn stíga fast til jarðar með auknum framlögum í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ og með víðtækari nýtingu Loftbrúar. Einnig er vert að skoða hugmyndir um ívilnanir til fyrirtækja sem sjá um að keyra íþróttalið víðsvegar um landið. Auk þess er mikilvægt að skoða hugmyndir um hvernig hægt er að draga úr kostnaði við gistingu.

Með fjárfestingu í íþróttum er verið að styðja við forvarnarstarf! Við ölum upp heilbrigðari einstaklinga og styrkjum samfélagið okkar til lengri tíma. Það er dýrt að vera ekki með öflugt íþróttastarf. Það mun kalla á aukin fjárframlög annarstaðar í kerfinu okkar.

Fjárfesting í íþróttum er fjárfesting í framtíðinni.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×