Fótbolti

Þjálfari Noregs rakar inn milljónum

Sindri Sverrisson skrifar
Ståle Solbakken tók við norska landsliðinu af Lars Lagerbäck.
Ståle Solbakken tók við norska landsliðinu af Lars Lagerbäck. Getty/Stu Forster

Ståle Solbakken, landsliðsþjálfari Noregs í fótbolta, fær rúmar 12 milljónir íslenskra króna vegna árangurs liðsins í Þjóðadeildinni.

Erling Haaland og félagar í norska liðinu léku í B-deild líkt og Íslendingar á þessari leiktíð, en í riðli 3. Þeir náðu að vinna sinn riðil, með því að vinna 5-0 sigur gegn Kasakstan í lokaumferðinni á sunnudag á sama tíma og Austurríki mistókst að vinna Slóveníu á heimavelli.

Norðmenn enduðu með þrettán stig á toppi riðilsins og eina tapið þeirra, 5-1 skellurinn gegn Austurríki, kom á endanum ekki að sök. Sigurinn í riðlinum kemur Noregi upp í A-deild.

Fyrir að vinna riðilinn fær norska knattspyrnusambandið svo peningabónus frá UEFA, sem norska sambandið hefur nú upplýst að nemi 17,5 milljónum norskra króna, eða um 215 milljónum íslenskra króna.

Norska sambandið segir að af þessari upphæð fái Solbakken eina milljón norskra króna, eða rúmar 12 milljónir íslenskra króna, samkvæmt samningi.

Leikmenn fengu þrjátíu prósent

Solbakken hefur áður sagt frá því að hann sé með sex milljónir norskra króna í grunnlaun á ári, eða tæpar 74 milljónir íslenskra króna. Takist honum að koma Noregi á HM 2026 fær hann jafnvirði rúmlega 60 milljóna íslenskra króna aukalega í sinn vasa.

Leikmenn norska landsliðsins deila á milli sín 30% af þeim 215 íslensku milljónum sem fengust fyrir að vinna riðilinn. Þeir deila því á milli sín jafnvirði 64,5 milljóna íslenskra króna.

Framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins segir kærkomið að fá peninga fyrir að vinna riðilinn eftir kostnaðasamt ár. Þar telji ferðalög einna mest og þá ekki síst leiguflugið til Kasakstan í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×