Þótt þess sé nú minnst að þúsund dagar eru liðnir frá allsherjar innrás Rússa í Úkraínu úr norðri, austri og suðri hinn 24. febrúar 2022 hefur stríðið í raun staðið yfir í tíu ár. Rússar lögðu undir sig Krímskaga og hófu hernað í austurhluta Úkraínu árið 2014.
Rússar hafa engu eirt í látlausum skórskotaliðs-, eldflauga og loftárásum þeirra á borgir og bæi í Úkraínu og fjölmargir stríðsglæpir þeirra hafa verið skrásettir. Evrópusambandið telur að um 600 börn hafi fallið í árásunum. Um fimm milljónir manna muni líða fæðuskort á næsta ári og um 40 prósent þjóðarinnar muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Um helmingur allra orkuinnviða landsins hafi verið eyðilagður og því muni stór hluti þjóðarinnar hvorki hafa hita né rafmagn nú í vetur þegar frostið getur farið niður í 20 gráður.

Vesturlönd hafa stutt við Úkraínu með vopnasendingum og mannúðaraðstoð fyrir hundruð milljaðra dollara og alls kyns viðskiptaþvinganir hafa verið settar á rússnesk stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga. Vopnasendingarnar hafa aðallega miðast við að Úkraínumenn geti varið sig með loftvarnakerfum og svarað fyrir sig á vígvellinum.
Það var hins vegar ekki fyrr en í gær sem Joe Biden forseti Bandaríkjanna heimilaði Úkraínumönnum að beita langdrægum bandarískum eldflaugum á skotmörk innan Rússlands, sem Úkraínumenn hafa ítrekað óskað eftir.
Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu segir þetta geta valdið straumhvörfum í stríðinu.
„Þeim mun lengra sem við getum gert árásir, þeim mun styttra verður stríðið. Sú afstaða okkar hefur alltaf verið skýr að við höfum fullan rétt á að gera árásir á hernaðarleg skotmörk innan Rússlands,“ sagði Sybiha í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í gær.

Nóttina áður höfðu Rússar gert eina öflugustu árás sína á Úkraínu frá upphafi stríðsins þegar þeir skutu 120 eldflaugum og um 90 árásardrónum á borgir og bæi víðs vegar um landið. Vesturlönd hafa hikað í þessum efnum af ótta við að stigmagna stríðið en Rússar hafa hins vegar gert það með auknum árásum og hernaðaraðstoð frá bæði Íran og norður Kóreu sem að auki hefur sent rúmlega 10 þúsund hermenn til að aðstoða Rússa.