Viktor Gísli er í viðtali við heimasíðu EHF vegna nýrrar leikviku í Meistaradeildinni, og lýsir því hvernig sé að spila nú með pólska liðinu Plock eftir komuna frá Frakklandi, og með markverðinum magnaða Mirko Allilovic.
En Viktor talar líka um það hve spennandi sé að mæta Aroni nú þegar Veszprém hefur fengið Aron frá FH.
„Þetta kom mér auðvitað á óvart en þetta er frábært fyrir handboltaheiminn,“ sagði Viktor um komu Arons til Veszprém.
„Aron þekkir þjálfarann þarna, Xavi Pascual, mjög vel, þekkir félagið og er enn stórkostlegur leikmaður. Hann var svo sannarlega aðalátrúnaðargoðið mitt þegar ég byrjaði í handbolta. Hann er goðsögn,“ sagði Viktor.
Viktor virðist í toppmálum í Póllandi varðandi þróun síns ferils, því auk þess að æfa með Allilovic, og hinum unga Marcel Jastrzebski, þá æfir hann undir handleiðslu Marcin Wichary sem eitt sinn var aðalmarkvörður Póllands.
Góðir félagar en aðeins einn getur spilað í einu
„Það er virkilega svalt að æfa og spila með Mirko. Hann er með svo rosalega reynslu og veitir manni mikinn innblástur. Við markverðirnir erum allir þrír góðir félagar, en auðvitað getur bara einn spilað í einu og það er erfitt að sitja á bekknum,“ sagði Viktor.
Hann segist vera að læra pólsku, en í leikmannahópi Plock eru engu að síður leikmenn af 11 þjóðernum og enska aðaltungumálið sem talað er.
Wisla Plock hefur ekki gengið nægilega vel í Meistaradeildinni og aðeins unnið einn af sjö leikjum sínum. Það er þó ekki út af markvörslu og vörn því liðið hefur fengið fæst mörk á sig af liðunum 16, eða 184.
„Við höfum verið að klikka á stóru stundum í leikjunum. Það hefur oft munað litlu. Það eiga öll lið erfitt með að vinna okkur og við trúum áfram á okkar kerfi,“ sagði Viktor.