Körfubolti

Gerði betur en Curry, jafnaði NBA met og hermdi eftir Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dalton Knecht fagnar einni af þriggja stiga körfum sinum fyrir Los Angeles Lakers á móti Utah Jazz.
Dalton Knecht fagnar einni af þriggja stiga körfum sinum fyrir Los Angeles Lakers á móti Utah Jazz. Getty/Harry How

Það er ný stjarna að fæðast í Los Angeles og sá heitir Dalton Knecht og spilar með liði Lakers í NBA deildinni í körfubolta.

Knecht er nýliði í deildinni en skoraði 37 stig í nótt í 124-118 sigri Lakers á Utah Jazz.

Strákurinn skoraði meðal annars níu þrista í leiknum og jafnaði þar með nýliðametið yfir flesta þrista í einum leik.

Metið var þó ekki í eigu Steph Curry sem skoraði mest sjö þrista í leik á nýliðaárinu sínu með Golden State Warriors. Metið áttu þeir Keyonte George (15. febrúar 2024), Yogi Ferrell (3. febrúar 2017) og Rodrigue Beaubois (27. mars 2010) saman en núna hefur sá fjórði bæst við í hópinn.

Knecht skoraði 21 stig á síðustu fjórum mínútum í þriðja leikhluta þar sem hann hitti meðal annars úr fjórum þristum í röð. Hann endaði með því að hitta úr 12 af 16 skotum sínum í leiknum þar af 9 af 12 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Knecht var svo sjóðandi heitur að hann tók meðal annars upp á því að herma eftir frægum viðbrögðum Michael Jordan frá því í lokaúrslitum 1992. Það gerði Knecht með því að yppta öxlum eftir að enn einn þristurinn hans söng í netinu.

Lakers valdi Knecht númer sautján í nýliðavalinu. „Við uppgötvuðum ekki DK. Hin sextán félögin klúðruðu þessu bara. Horfði enginn á hann spila? Þú uppgötvar ekki leikmann ársins í SEC deildinni,“ sagði LeBron James, að sjálfsögðu ánægður með liðsfélaga sinn en um leið hneykslaður á því hvernig gat dottið alla leið niður í sæti sautján á nýliðavalinu.

„Hann er óttalaus og stórt vopn fyrir okkar hóp en ekki bara í því að skora. Hann er orkugjafi fyrir liðið okkar,“ sagði þjálfarinn JJ Redick sem sjálfur var mikil skytta. Redick náði einu sinni að skora níu þrista í leik í sínum 940 NBA leikjum en nýliðinn var að ná því í sinum fjórtánda leik í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×