Íslenski boltinn

Systur sömdu á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Laufey og Olga Lind Gestsdætur eru framtíðarleikmenn hjá meistaraflokki kvenna hjá Selfossi.
Anna Laufey og Olga Lind Gestsdætur eru framtíðarleikmenn hjá meistaraflokki kvenna hjá Selfossi. @selfossfotbolti

Selfyssingar fengu sannkallaðan pakkadíl þegar þeir gengu frá samningum við efnilegar knattspyrnukonur.

Systurnar Anna Laufey og Olga Lind Gestsdætur hafa nefnilega báðar skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Báðar koma þær frá Þorlákshöfn en hafa æft og spilað með yngri flokkum Selfoss frá því í fjórða flokki.

Í sumar komu þær báðar við sögu í tveimur leikjum í Lengjudeild kvenna en voru á sama tíma lykilleikmenn í 2. flokknum sem endaði í öðru sæti bæði á Íslandsmóti og í bikarkeppninni.

Anna Laufey er nítján ára varnarmaður sem er bæði fljót og líkamlega sterk.

Olga Lind er sautján ára miðjumaður með mikla vinnusemi og kraft.

Selfyssingar sögðu að sjálfsögðu frá samningnum stelpnanna á sama tíma og mynduðu þær saman. Samfélagsmiðlafólk félagsins leyfði sér einnig að gantast aðeins með gott sambanda systranna.

„Finndu einhvern sem horfir á þig eins og systurnar horfa á hvora aðra,“ var skrifað í Instagram síðu Selfossliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×