Fótbolti

Annað á­fall fyrir Hörð sem fór til sama læknis og Rodri

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon hefur mátt þola afar erfiðan tíma hjá Panathinaikos, vegna meiðsla.
Hörður Björgvin Magnússon hefur mátt þola afar erfiðan tíma hjá Panathinaikos, vegna meiðsla. Getty/Jose Manuel Alvarez

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta, mun ekki geta spilað að nýju fyrr en næsta vor en þá verður eitt og hálft ár liðið síðan að hann sleit krossband í hné.

Fótbolti.net greinir frá þessu og segir að Hörður hafi nýverið neyðst til að fara í aðra aðgerð vegna verks í hné, eftir að hafa verið kominn aftur á ferðina í haust eftir hið langa og erfiða endurhæfingarferli sem fylgir krossbandsslitum. 

Hörður er leikmaður Panathinaikos og hann sleit upphaflega krossband í hné í leik við AEK Aþenu í grísku úrvalsdeildinni, í september 2023.

Harðar hefur verið saknað í íslenska landsliðinu en þar hefur hann spilað 49 leiki, þar á meðal alla þrjá leikina á HM 2018.

Gæti snúið aftur rétt áður en samningur rennur út

Þessi 31 árs gamli varnarmaður fór samkvæmt frétt Fótbolta.net í seinni hnéaðgerðina í Barcelona, hjá spænska lækninum Ramon Cugat sem er sá sami og sá um aðgerðina fyrir Manchester City-manninn Rodri, handhafa Gullknattarins.

„Hörður fór í liðspeglun og var hugað að sinabólgu til að ná stöðugleika á hnéð,“ segir í fréttinni og er talið að Hörður gæti snúið aftur til leiks í apríl eða maí á næsta ári.

Það yrði þá rétt áður en núgildandi samningur Harðar við Panathinaikos á að renna út, en hann gildir út júní á næsta ári.

Hörður hefur verið leikmaður Panathinaikos frá árinu 2022 en var áður hjá CSKA Moskvu í fjögur ár. Þar áður lék hann með Bristol City eftir að hafa byrjað atvinnumannsferil sinn sem leikmaður Juventus, þó hann hafi ekki spilað fyrir aðallið félagsins. Hann lék sem lánsmaður með Spezia og Cesena á Ítalíu áður en hann fór til Bristol árið 2016, eftir að hafa verið í EM-hópi Íslands í Frakklandi það ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×