Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að þrotabúið hafi stefnt ríkinu til riftunar á greiðslu virðisaukaskatts upp á rétt rúmar fjórtán milljónir króna þann 31. mars í fyrra. Fyrr sama dag var starfsfólki Torgs tilkynnt að hætt hefði verið við útgáfu Fréttablaðsins og að útsendingar Hringbrautar stöðvuðust.
Í dóminum segir að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 4. apríl í fyrra. Samkvæmt kröfuskrá nemi lýstar kröfur í búið samtals rétt tæplega 1,5 milljörðum króna.
Greiddu of snemma
Í dóminum segir að þrotabúið hafi byggt riftunarkröfu sína aðallega á því að umrædd skuld hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi laga um gjaldþrotaskipti og fleira og til vara að greiðsla skuldarinnar hafi skert greiðslugetu félagsins verulega í skilningi sömu laga. Þá hafi hafi þrotabúið byggt á riftunarreglu sömu laga til þrautavara.
Fyrir liggi að umrædd skuld hafi verið vegna virðisaukaskatts fyrir tímabilið janúar til febrúar 2023 og félagið hafi greitt hana 31. mars 2023 kl. 15:30 eftir að hafa skilað virðisaukaskattsskýrslu vegna tímabilsins kl. 15:02 sama dag. Gjalddagi kröfunnar,og jafnframt síðasti dagur til að skila virðisaukaskattsskýrslu vegna umrædds tímabils, hafi verið 5. apríl.
Með vísan til þess og fordæma Hæstaréttar væri fallist á það að greiðslan hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var.
Ekki venjulegt
Að því frágengnu hafi einnig þurft að komast til botns í því hvort greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi laganna.
Í málinu liggi fyrir hreyfingayfirlit Skattsins vegna virðisaukaskattsskila Torgs ehf. á 25 uppgjörstímabilum, frá apríl 2019 til febrúar 2023. Þar sjáist að í tuttugu af þeim tilvikum hafi félagið greitt virðisaukaskatt á gjalddaga, í tveimur tilvikum hafi verið greitt samkvæmt greiðsluáætlunum eftir upphaflegan gjalddaga en í þremur tilvikum hafi skatturinn verið greiddur fyrir gjalddaga. Allt frá desember 2021 til febrúar 2023 hafi umræddar greiðslur ávallt verið inntar af hendi á gjalddaga eða einum til tveimur dögum eftir hann.
Þau þrjú tilvik þar sem greiðslur voru inntar af hendi fyrir gjalddaga hafi verið greiðslur sem voru greiddar 31. mars 2021, 30. júlí 2021 og 30. september 2021. Af þessu verði ráðið að venjulega hafi greiðslur af þessu tagi verið greiddar á gjalddaga eða skömmu eftir hann, meðan félagið var í rekstri, þótt finna megi einstök dæmi um annað.
Ljóst að staðan væri slæm
Þá væri til þess að líta að þegar greiðslan var innt af hendi hafi legið fyrir að fjárhagsstaða félagsins væri slæm enda muni starfsfólki hafa verið tilkynnt um það á fundi fyrr sama dag að óskað yrði eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Þá hefðu fjölmiðlar fjallað um yfirvofandi gjaldþrot þess áður en greiðslan var innt af hendi.
Að þessu virtu standi að mati dómsins líkur til þess að slæm fjárhagsstaða félagsins kunni að hafa haft áhrif á þá ákvörðun að inna greiðsluna af hendi fyrr en ella og jafnframt að móttakanda greiðslunnar hafi mátt vera það ljóst.
Því væri fallist á það að ekki hafi virst eðlilegt eftir atvikum að greiða skuldina fyrir gjalddaga og því fallist á riftunarkröfu þrotabúsins.