Innlent

Ætla að opna Bláa lónið 29. nóvember

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Bílaplanið við Bláa lónið fór undir hraun í gær.
Bílaplanið við Bláa lónið fór undir hraun í gær. Vísir/Vilhelm

Til stendur að opna Bláa lónið aftur fyrir gestum 29. nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tölvupósti sem sendur var til viðskiptavina.

„Við hlökkum til að bjóða þér í Bláa lónið þegar þú kemur til landsins. Eins og þið vitið, hófst eldgos við Sundhnúksgígaröðina 20. nóvember síðastliðinn. Eldgosið stendur enn yfir, en okkar innviðir innan varnargarðanna eru öruggir. Við erum í nánu samstarfi við yfirvöld,“ stendur í tölvupóstinum.

Þá eru viðskiptavinir hvattir til að fylgja öllum leiðbeiningum yfirvalda svo heimsókn þeirra verði örugg og ánægjuleg.

„Það gleður okkur að tilkynna ykkur að við stefnum að því að bjóða gestum aftur í lónið föstudaginn 29. nóvember. Farið endilega inn á heimasíðu okkar fyrir nýjustu upplýsingar að hverju sinni,“ segir í tölvupósti Bláa lónsins.

Framkvæmdastjóri Bláa lónsins sagði fyrr í dag að þrátt fyrir dramatíska atburðarás þegar bílastæði lónsins fór undir hraun í gær, standi allt athafnasvæði lónsins styrkum fótum.

Verið væri að skoða bílastæðamál eftir að hraun flæddi yfir bílaplanið við lónið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×