Kosningabaráttan er að harðna nú þegar aðeins er tæp vika í að landsmenn gangi að kjörborðinu. En þar er líka svigrúm fyrir glens. Baldvin er þekktur fyrir að setja inn á Facebook-síðu sína hnyttnar athugasemdir og ein slík er: „Nú má auka D vítamínið í eina viku. Taka eina töflu fyrir svefninn og eina áður en maður vaknar. XD“

Dagur B. Eggertsson frambjóðandi Samfylkingarinnar skrifar óvænt athugasemd við ráð Baldvins og seilist nú í læknifræðikunnáttu sína. Hann segist dást að seiglunni en Baldvin megi vara sig á of miklu D-vítamíni.
„Of mikið af D-vítamíni getur leitt til aukinnar kalkupptöku úr meltingarveginum og jafnvel endurupptöku kalks úr beinum. Aukið kalkmagn í blóði getur haft í för með sér óeðlilegar kalkútfellingar í mjúkum vefjum, svo sem hjarta og lungum, og dregið þannig úr starfsgetu þeirra. Helstu einkenni eru vöðvaslappleiki, höfuðverkur, lystarstol, ógleði, uppköst og beinverkir. Bestu kveðjur í baráttuna.“
Góður rómur er gerður að þessari ábendingu Dags en þó eru ekki allir sem eru ánægðir með hans framlag. Magnús Rúnar Kjartansson er einn þeirra sem spyr: „Ætlar þú virkilega að bjóða þig fram sem mikinn reynslubolta í pólitík?? Kanntu ekki að SKAMMAST ÞÍN.“
Dagur svarar Magnúsi Rúnari snarlega og lætur hann ekki eiga neitt inni hjá sér: „Já, hvet alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika yfir mig.“