Innlent

Sást á öryggismyndavélum þegar Diego var numinn á brott

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Diego er einn frægasti köttur landsins og er fastagestur í A4 í Skeifunni.
Diego er einn frægasti köttur landsins og er fastagestur í A4 í Skeifunni. Hulda Sigrún

Fréttir af hvarfi kattarins Diego vöktu athygli í gær en hann hefur verið sagður einn frægasti köttur landsins. Grunur er um að Diego hafi verið rænt í Skeifunni en kötturinn hefur lengi verið fastagestur í verslunum Hagkaupa og A4. Verslunarstjóri A4 í Skeifunni staðfestir að á öryggismyndavélum megi sjá hvar meintur ræningi hafi gengið inn í verslunina á sjöunda tímanum í gærkvöldi og haft köttinn með sér á brott.

„Eina sem við vitum er bara það sem við sáum á öryggismyndavélum. Það kemur einstaklingur inn, klappar honum, tekur hann og labbar í burtu,“ segir Sigurborg Þóra Sigurðardóttir, verslunarstjóri hjá A4 í Skeifunni. Aðspurð telur hún líklegt að viðkomandi hafi verið þar á ferðinni sérstaklega til að nálgast köttinn en ekki til að versla.

„Væntanlega sérstaklega til að nálgast köttinn vegna þess að hann kemur bara beint inn, að kettinum og út. Þetta er innan við ein mínúta,“ útskýrir Sigurborg. „Ég lét eigandann vita að við værum með myndskeið þannig að hún gæti haft samband við lögreglu upp á að lögreglan gæti þá komið og séð myndskeiðið hjá okkur.“

Diego á sitt eigið bæli í versluninni og er sárt saknað að sögn Sigurborgar en alla jafna leggi hann leið sína í verslunina nær daglega. Hún hvetur þann sem kann að hafa Diego að skila honum til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×