Enski boltinn

Leicester-menn skammaðir fyrir jólapartíið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Djammferð Jamies Vardy og félaga til Kaupmannahöfn fór úr böndunum. 
Djammferð Jamies Vardy og félaga til Kaupmannahöfn fór úr böndunum.  getty/Catherine Ivill

Leikmönnum Leicester City hefur verið tjáð að framkoma þeirra í jólapartíi í Kaupmannahöfn hafi verið óásættanleg.

Eftir tapið fyrir Chelsea, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn ferðuðust leikmenn Leicester til Kaupmannahafnar og gerðu sér glaðan dag þar. 

Myndband af þeim á skemmtistað fór í dreifingu en þar sjást þeir halda á borða sem á stendur: „Enzo, ég sakna þín.“ Er þar vísað til fyrrverandi knattspyrnustjóra Leicester, Enzos Maresca. Eftirmaður hans, Steve Cooper, var rekinn frá Leicester daginn eftir tapið fyrir Chelsea.

Ben Dawson, sem tók tímabundið við þjálfun Leicester, sagði á blaðamannafundi í dag að leikmenn liðsins hefðu verið skammaðir fyrir partíið í Kaupmannahöfn.

„Þeir hafa fengið skilaboð frá félaginu að það sem gekk á hafi ekki verið ásættanlegt og við þurfum að halda áfram. Þannig var það. Allt hefur svo snúist um að sýna góða frammistöðu og æfa vel til að ná í góð úrslit,“ sagði Dawson en Leicester mætir Brentford á útivelli á morgun.

Búist er við því að Ruud van Nistelrooy verði ráðinn næsti stjóri Leicester og ráðning hans verði staðfest innan tíðar.

Leicester er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig, einu stigi frá fallsæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×