Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, staðfestir að starfsfólki þjónustumiðstöðvarinnar í Turninum í Kópavogi hafi verið sagt upp í gærmorgun. Draga þurfi saman seglin eftir að heilsurannsókninni lauk hvað sem síðar verði. Fimm starfsmenn hennar starfi áfram að öðrum verkefnum.
Heilsurannsókn Íslenskrar erfðagreiningar stóð yfir í nokkur ár en hún beindist að tengslum erfða, umhverfis og heilsu til þess að auka þekkingu á orsökum sjúkdóma. Rannsóknarmiðstöðin er sjálfseignarstofnun sem sá um framkvæmd rannsóknarinnar fyrir Íslenska erfðagreiningu.
Sautján starfsmönnum miðstöðvarinnar var sagt upp í febrúar í fyrra vegna verkefnastöðu í rannsóknum.
Þjónustumiðstöðin í Kópavogi var í sviðsljósinu í Covid-faraldrinum. Þar voru tekin sýni úr þúsundum Íslendinga til þess að skima fyrir kórónuveirunni í samvinnu við sóttvarnalækni.