Handbolti

„Skiptir okkur of­boðs­lega miklu máli að komast í þessa leiki“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson var ánægður með stelpurnar okkar í kvöld.
Arnar Pétursson var ánægður með stelpurnar okkar í kvöld. Christina Pahnke - sampics/Getty Images

„Þetta er bara geggjað og frábært að hafa allt þetta fólk með okkur,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson eftir að hafa fagnað fyrsta stórmótasigri íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Hann segir mikið hafa verið undir og var ánægður að sjá stelpurnar klára verkefnið vel.

„Vorum frábærar í fyrri hálfleik. Vorum að spila mjög góðan leik, lentum í smá brasi sjö á sex en leystum það. Svo í seinni hálfleik var alveg hægt að sjá á okkur að það væri mikið undir. Allar meðvitaðar um að við værum að spila upp á fyrsta sigurinn. En ég var ánægður með hvernig við lokuðum þessu. Allir með og allir með sitt hlutverk, frábært að sjá stelpurnar sigla þessu heim, þær eiga það svo sannarlega skilið,“ sagði hann svo um leikinn sjálfan, sem Ísland vann 27-24 gegn Úkraínu.

Framundan hjá liðinu er svo hreinn úrslitaleikur um sæti í milliriðli, gegn Þýskalandi á þriðjudag.

„Skiptir okkur ofboðslega miklu máli að komast í þessa leiki. Við höfum áður farið í úrslitaleiki sem að við fengum helling út úr. Þetta allt saman eflir okkur og hjálpar okkur að taka skref fram á við. Við ætlum að gera það líka í leiknum á þriðjudaginn,“ sagði Arnar að lokum.

Klippa: Arnar Pétursson eftir fyrsta stórmótasigur Íslands

Viðtalið við Arnar, sem Valur Páll Eiríksson tók, má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Ísland spilar gegn Þýskalandi á þriðjudag klukkan hálf átta og leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×