Fótbolti

Ís­land í þriðja styrk­leika­flokki fyrir undan­keppni HM

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Óskarsson sóknarmaður íslenska landsliðsins í leik gegn Tyrkjum í Þjóðadeildinni.
Orri Óskarsson sóknarmaður íslenska landsliðsins í leik gegn Tyrkjum í Þjóðadeildinni. vísir/Hulda Margrét

Ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta verður í þriðja styrk­leika­flokki af fimm þegar að dregið verður í undan­keppni HM 2026 þann 13.desember næst­komandi.

Niðurröðun styrk­leika­flokkanna hefur nú verið birt en alls munu sex­tán Evrópulönd tryggja sér sæti á HM sem mun fara fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Dregið verður í tólf fjögurra og fimm liða riðla í Zurich föstu­daginn 13.desember næst­komandi en keppni í fimm liða riðlunum mun hefjast í mars á næsta ári en þegar kemur að fjögurra liða riðlunum mun keppni hefjast í septem­ber. Undan­keppninni lýkur svo í nóvember á næsta ári.

Ljóst er að Ís­land mun leika í fjögurra liða riðli þar sem að liðið mun leika um­spils­leiki við Kó­sovó um sæti í B-deild Þjóða­deildarinnar í mars þegar að keppni í fimm liða riðlunum á að hefjast.

Hvað dráttinn fyrir undan­keppni HM varðar mun Ís­land því dragast í riðil með einu liði úr styrk­leika­flokki eitt, tvö og fjögur.

Styrkleikaflokkarnir fyrir undankeppnina eru eftirfarandi:

  • Styrkleikaflokkur 1: Frakkland, Spánn, England, Portúgal, Holland, Belgía, Ítalía, Þýskaland, Króatía, Sviss, Danmörk og Austurríki

  • Styrkleikaflokkur 2: Úkraína, Svíþjóð, Tyrkland, Wales, Ungverjaland, Serbía, Pólland, Rúmenía, Grikkland, Slóvakía, Tékkland og Noregur

  • Styrkleikaflokkur 3: Skotland, Slóvenía, Írland, Albanía, N-Makedónía, Georgía, Finnland, Ísland, N-Írland, Svartfjallaland, Bosnía og Herzegóvína og Ísrael

  • Styrkleikaflokkur 4: Búlgaría, Lúxemborg, Belarús, Kósovó, Armenía, Kasakstan, Azerbaíjan, Eistland, Kýpur, Færeyjar, Lettland og Litháen

  • Styrkleikaflokkur 5: Moldóva, Malta, Andorra, Gíbraltar, Liechtenstein og San Marínó

Þau tólf lið sem að bera sigur úr býtum í sínum riðli í undan­keppninni tryggja sér beint sæti á HM. Þeir fjórir far­miðar sem þá eftir sitja verða ákvarðaðir með um­spili þeirra tólf liða sem enda í öðru sæti riðlanna auk þeirra fjögurra liða sem ná besta árangrinum í yfir­standandi keppni Þjóða­deildarinnar og ná ekki að tryggja sér sæti á HM í gegnum undan­keppnina. Um­spilið mun fara fram í mars árið 2026.

Óvíst er á þessari stundu hver muni stýra ís­lenska lands­liðinu í komandi undan­keppni. Þjálfara­leit KSÍ stendur nú yfir eftir að Norðmaðurinn Age Hareide sagði starfi sínu lausu í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×