Enski boltinn

Neitaði að sýna regn­boga­liti og fé­lagið segist virða það

Sindri Sverrisson skrifar
Sam Morsy vill bara vera með venjulegt fyrirliðaband en ekki sýna LGBTQ+ fólki stuðning.
Sam Morsy vill bara vera með venjulegt fyrirliðaband en ekki sýna LGBTQ+ fólki stuðning. Getty/Hannah Fountain

Fótboltamaðurinn Sam Morsy, fyrirliði Ipswich, neitaði að bera fyrirliðaband í regnbogalitum og sýna þannig stuðning við hinsegin fólk, í leik við Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa í leikjum um helgina og í þessari viku sýnt stuðning við LGBTQ+ fólk og baráttuna fyrir tilverurétti þess í íþróttum. Því hafa fyrirliðar liðanna borið fyrirliðaband í regnbogalitunum, sem undirstrika fjölbreytileika mannfólksins, fyrir utan Morsy.

Ipswich hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og segist félagið bera virðingu fyrir ákvörðun hins 33 ára gamla Morsy, sem er landsliðsmaður Egyptalands.

Ipswich segir að félagið leggi sig fram um að vera félag sem bjóði allt fólk velkomið. Það standi með LGBTQ+ samfélaginu í að stuðla að jafnrétti, og styðji við „Rainbow Laces“-herferð úrvalsdeildarinnar. Þetta hafi félagið gert og muni gera með virkum hætti, til að mynda á heimaleiknum við Crystal Palace á morgun.

„Á sama tíma þá virðum við ákvörðun fyrirliðans okkar, Sam Morsy, sem kaus að bera ekki regnbogafyrirliðabandið af trúarástæðum,“ segir í tilkynningu frá Ipswich.

Ipswich tapaði leiknum geng Forest um helgina, 1-0, og er í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar með níu stig en aðeins tveimur stigum frá 15. sæti. 

Morsy, sem er Múslimi, er fæddur og uppalinn á Englandi en á egypskan föður og enska móður. Hann hefur leikið með Ipswich frá árinu 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×