Hulda Vilhjálmsdóttir er mikilsvirt myndlistakona sem hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna. Hulda er fjögurra barna móðir en hún hefur allt frá 1990 þjálfað sig markvisst í myndlist. Hún hefur, allt þar til fyrir nokkrum árum, átt erfitt með að meta sjálfa sig sem listakonu þrátt fyrir að hún hafi alltaf málað. Henni var hafnað um listamannalaun á dögunum eins og fleiri listamönnum líkt og Vísir hefur fjallað um undanfarna daga.
„Kannski þegar maður er móðir þá finnst manni maður ekki vera alveg fullur þegn í listinni en ég hef fengið þrisvar sinnum þrjá mánuði og einu sinni sex mánuði þannig að núna sótti ég um og ég var svo viss um að ég fengi laun því ég var búin leggja alla þessa vinnu bara frá því ég var barn. […] og ég er að vinna í góðum sýningum.“
En í janúar verður sett upp stór sýning með Huldu á Listasafni Akureyrar og svo önnur stór sýning í Vínarborg seinna á árinu. Þá tekur hún þátt í fjölmörgum samsýningum.

„Þannig að ég var svolítið svekkt að fá nei, mér fannst ég vera alvöru listamaður og mér fannst ég hafa staðið mig og ætti það skilið að fá bara 12 mánuði. Ég var svolítið niðurbrotin, ég var búin að leggja mikla peninga í þessa sýningu á Akureyri svo þetta var sjokk fyrir mig.“
Hulda segist ekki biðja um mikið, bara nóg til að hún geti haldið áfram í myndlistinni. Nú blasi við afkomuótti sem hún vill ekki að dóttir sín upplifi.
„Mér finnst ég þurfa að tjá mig, fyrir dóttur mína sem langar að fara í listnám og fyrir ungt fólk. Við eigum að styðja við nýsköpun. Það er fjárfesting. Við vitum ekkert hvað við fáum að lifa lengi.“
Hulda vill búa listamönnum framtíðarinnar betra líf.
„Þú hringir í mig og ég þakka þér fyrir að bjóða mér að tala. Fyrir tíu árum hefði ég grátið bara og spurt mig: „Hvað er ég að gera, til hvers og fyrir hvern? En köllunin er mikið andleg.“
Það getur enginn tekið hana frá þér.
„Það getur enginn tekið hana frá mér og það er það dýrmætasta.“