Woods hefur unnið fimmtán risamót á einstökum ferli sínum en þessi 48 ára kylfingur hefur ekki keppt síðan á The Open í júlí. Það var þriðja risamótið í röð þar sem honum mistókst að komast í gegnum niðurskurðinn.
Þrátt fyrir ítrekuð meiðsli er Woods ekki hættur að keppa.
„Ég er ekki enn kominn á þann stað aftur að vera klár í keppni. Þegar ég get aftur keppt á efsta stigi þá mun ég gera það,“ sagði Woods á Hero World Challenge á Bahamaeyjum.
„Ég hef enn eldmóðinn til að keppa. Eini munurinn er að líkaminn jafnar sig ekki með sama hætti og áður,“ sagði Woods.
Woods fór í bakaðgerð í september, í sjötta sinn, en bakmeiðsli hans hafa valdið honum verk í fæti.
„Ég hélt að bakið færi ekki eins og það gerði á þessu ári. Þetta var ansi sársaukafullt undir lokin og ég þurfti aðgerð til að draga úr sársaukanum sem leiddi niður í fótinn. Mér finnst eins og ég sé að verða sterkari, ég er að verða liðugri, en ég enn langt í land með að geta keppt á móti þessum mönnum,“ sagði Woods.